139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:14]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir áhugann á málinu eða eigum við kannski að segja áhugann á nafninu, enda hefur nafnamálið mikla tengst þessu máli fram og til baka. Og nú höldum við áfram að ræða það.

Ég held að í tengslum við þetta mál þurfum við að fara yfir það í huga okkar og hjarta að við viljum á einhvern hátt reyna að sameina það að bera virðingu fyrir hinu gamla og halda í heiðri söguna og gamlar hefðir um leið og við viðurkennum að þróun verður og ýmsir nýir þættir máls koma inn og það getur t.d. komið fram í hugtakanotkun. Þannig finnst mér það skipta mjög miklu máli að í hugtökum eða heitum stofnana sé ákveðið gegnsæi og þess vegna finnst mér það nafn sem við höfum gert ráð fyrir að þessi nýja stofnun muni nýta, þ.e. landlæknir – lýðheilsa, sem kannski gæti styst í eitthvað annað, vera hið besta mál. Í ljósi þess að við viljum leggja mjög mikla áherslu á lýðheilsuþáttinn, þ.e. forvarnir og heilsueflingu, á meðan landlæknisembætið hefur meira verið tengt eftirliti og starfsleyfisútgáfu og annað slíkt, þá finnst mér það skipta máli. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það ekki skipta máli að við sjáum það á nafninu nákvæmlega hvaða hlutverki stofnunin á að gegna.

Hv. þingmanni varð talsvert tíðrætt um brag og starfsanda í upphafi máls síns. Heldur hann ekki að það að lýðheilsuþátturinn kemur inn í nafn stofnunar geti skipt máli fyrir þá starfsmenn sem koma inn frá Lýðheilsustofnun?