139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:20]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hverjum þykir sinn fugl fagur í þessu. Ég tel að að einhverjum tíma liðnum hafi landlæknir þann hljóm að menn skilji að honum er annt um lýðheilsu. Ég tel að það hafi verið svo árið 1760 og lengst af þessara 250 ára, þetta hefur staðið í fjórðung þúsaldar, að þá hafi þetta verið svo. Ég nefndi Veðurstofu Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í bæði skiptin var sú tilfinning fyrir hendi hjá hluta starfsmanna að ein stofnun væri að yfirtaka aðra.

En það er ekki nafnið sem ræður úrslitum um það. Það verður heldur ekki nafnið sem ræður úrslitum um það hvort fyrirbærið Vegagerðin, sem nú er verið að ræða í samgöngunefnd, og er gamla Vegagerðin og Siglingamálastofnun og fleiri slíkar stofnanir, nær flugi eða ekki, heldur er það inntak málsins og samstarf starfsmanna sem þar vinna.