139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:24]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni ég hef oft verið pirraður í ræðustól og ég skil hann ágætlega að vera pirraður í þessum ræðustól þegar eitthvað gerist sem honum líkar ekki. Það þarf ekki endilega að vera neikvætt að vera pirraður. Það er hins vegar málflutningurinn sem getur verið jákvæður eða neikvæður í þessu. Mér þótti, og biðst afsökunar á því ef það er rangt, viðhorf hans til þess hvað þetta fyrirbæri héti mótast nokkuð af þeim pirringi sem hann hefur efnislega gagnvart því máli sem hér er til umræðu. Hv. þingmaður mótmælir því þá bara ef það er ekki þannig.

Ég held líka að það sé rétt að vel geti komið að því að yfirmaður þessa málaflokks sé ekki læknir. En gert er ráð fyrir því að hann sé það í frumvarpinu sem við ræðum hér og eðlilegt að hann sé kallaður landlæknir. Ef hann er kallaður landlæknir er eðlilegt að stofnunin heiti einfaldlega embætti landlæknis eða hvað annað sem hæfir því fornfræga nafni. Þegar hv. þingmaður er búinn að búa til nýja stofnun og kemur með frumvarp um það og yfirmaður hennar er með MBA-próf í heilbrigðisstofnanarekstri eða einhverju álíka þá skulum við ræða um það að leggja niður orðið landlæknir og finna stofnuninni eitthvert nafn með margfaldri samsetningu, en svona er þetta núna og þess vegna er tillagan til komin.