139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom víða við og var gagnrýninn á fjáraustur.

Við heyrðum reyndar fyrr í dag að það eru loforð um 2 þúsund störf í þjóðfélaginu. Það eru loforð sem við höfum heyrt oft áður og eru svona endurnýtt loforð. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að hann kom ekki inn á það: Þegar fólki er sagt upp núna hjá hinu opinbera, og ég er sammála því að maður sparar ekki í ríkisrekstri nema með því að segja upp fólki af því að 70% af kostnaðinum eru laun, hvað gerist með fólk sem er sagt upp í dag? Fær það vinnu hvar sem er aftur þegar það missir vinnuna? Hvað gerist með þetta fólk? Verður það ekki bara atvinnulaust og fer úr einum gjaldapóstinum hjá ríkinu yfir á annan, þ.e. framlög til atvinnuleysistrygginga munu þá aukast við þennan svokallaða sparnað í þessu atriði? Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin er um húsnæðiskostnaðinn eða húsnæðið, að menn ætla sér að reyna að leigja þetta húsnæði. Telur hv. þingmaður miklar líkur á því og mjög gæfulegt að ætla að fara að leigja húsnæði í dag þar sem alls staðar virðist vera yfirfullt af húsnæði sem er meira og minna ekki notað? Verður einhver sparnaður í þessu?

Svo er það sem er kannski athyglisverðast í þessu að menn ætla sér að spara í húsnæðiskostnaði og að segja í rauninni fólki upp í staðinn og flytja fólk sem er starfsmenn ríkisins yfir í að vera atvinnulaust eða atvinnuleitandi fólk, það á víst að kalla það svo í dag, frá einum kostnaðarlið á annan. Menn þykjast vera að spara á einum póstinum en búa til kostnað annars staðar.