139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:56]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugann á þessu máli. Við stöndum frammi fyrir því eins og alltaf að auðvitað má oft gera betur en það hefur hvergi komið fram, af því að hv. þingmaður talar mikið um bruðl og að illa sé farið með fjármuni, að það hafi verið ætlunin í raun og veru að sameina þessar stofnanir af öðrum hvötum en faglegum. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þeir hvatar ekki líka geta verið allra góðra gjalda verðir.

Síðan langar mig til að spyrja hv. þingmann, af því að hann talaði um að þetta væri illa undirbúið. Nú hefur undirbúningsferlið verið mjög vel unnið af starfsmönnum embættanna beggja og verið rýnihópur og stýrihópur frá ráðuneytinu. Mig langar til að vita hvað þetta er, á hann fyrst og fremst við fjárhagslega þáttinn eða um hvað er hann að tala þegar hann segir að þetta sé illa undirbúið?

Í sambandi við húsnæðið sem nýrri stofnun er ætlað að fara í, þetta húsnæði er stærra en nákvæmlega það sem þarfagreiningin segir til um. Það er vegna þess að vilji er fyrir því að setja þar inn ný verkefni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig honum t.d. lítist á að almenn eftirlitsstofnun velferðarmála gæti farið inn í þessa stofnun.

Síðan langar mig til að benda á að þegar verið er að sameina stofnanir er það mannahald sem sparast, fyrst og fremst yfirmenn. Þannig verður t.d. hér einn forstöðumaður í stað tveggja. Það hafa verið 14 sviðsstjórar, að ég held, 12 eða 14 sviðsstjórar starfandi í þessum tveimur stofnunum en gert er ráð fyrir að þeir verði fjórir. En eftir sem áður er gert ráð fyrir því að öllum þeim sem þarna vilja starfa áfram verði boðið starf.