139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir andsvarið. Hér eru nokkrar spurningar sem ég ætla að reyna að komast yfir.

Hv. þingmaður þakkar mér fyrir áhugann á málinu. Já, ég hef mikinn áhuga á þessu máli af því að ég hef verulegar áhyggjur af því að sá aukakostnaður sem mér finnst verið að setja þarna í muni bitna á starfsfólki og það muni kosta störf. Um það snýst áhugi minn á málinu.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ekki megi gera þetta af faglegum hvötum en ekki sem sagt af fjárhagslegum hvötum. Jú, jú, ég er alveg tilbúinn að skoða það en mér finnst hins vegar blasa við að ef farið er í aukakostnað vegna húsnæðismála muni faglegi þátturinn minnka vegna þess að þá verður að segja upp starfsfólki. Mér finnst dálítil þversögn í því að ef hægt er að gera það kosti það færri starfsmenn og ég hræðist það, að það þýði færri starfsmenn og að forstöðumaður þessarar stofnunar muni þurfa að segja upp starfsfólki til að geta haldið sig innan fjárlaga og það muni þá þýða minni faglegheit.

Hv. þingmaður sagði líka að ég hefði komið inn á það í ræðu minni að þetta væri illa undirbúið. Já, ég kom inn á það í ræðu minni að mér fyndist þetta illa undirbúið. Þá átti ég ekki við starf nefndarinnar, ég átti ekki við það sem gert hefur verið hjá stofnunum sem snýr að faglega þættinum. Mér finnst eðlilegt og mjög raunhæf krafa þegar hv. þingmenn fjalla um sameiningu stofnana, eins og í þessu tilfelli og mörgum öðrum, að þá komi ráðuneytið með ákveðnar upplýsingar og segi að af þessu verði faglegur sparnaður, sem ég treysti hv. heilbrigðisnefnd til að fara yfir, og fjárhagslegur ávinningur. Ég vil bara fá það á blaði frá ráðuneytinu til að geta farið yfir það og þá geta menn bara rakið sig niður hvað megi gera (Gripið fram í.) til að ná þessari fjárhagslegu hagræðingu.