139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður held ég að hv. þm. Pétur Blöndal hafi lög að mæla þegar hann fer yfir stöðuna og hvernig mál hafa þróast. Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum ákveðin tæki og getum gert hvað við getum, bæði með fortölum og með því að vekja athygli á málum, að koma hlutum á réttar brautir.

Ég vek athygli á því að í umræðum um þetta mál í þinginu hafa í rauninni ekki komið nein mótrök frá stjórnarliðum. Það er ekki einu sinni haft fyrir því. Þeir vita að þeir hafa meiri hluta fyrir málinu og að það vekur enga sérstaka athygli í þjóðfélaginu og þess vegna á bara að renna því í gegn. Þeir hafa ekki svarað neinum spurningum varðandi kostnaðinn og því síður komið með rök, eins og menn sem hafa hlustað vita, en það á að renna þessu í gegn. Því miður er helsta von okkar sú að fólk taki eftir þessu og bregðist við. Í þessu tilfelli brást að vísu fólkið á stofnunum við og kom með málefnalegar athugasemdir. Þó að ekki væri mikið farið eftir þeim þá vakti það í það minnsta athygli á málinu sem gerir það kannski að verkum að við getum fylgt því betur eftir.

Ég skal alveg viðurkenna, virðulegi forseti, svo að ég svari fyrirspurn hv. þingmanns, að ég er ekki fullur bjartsýni á að á morgun, ég tala ekki um á eftir þegar við ræðum mjög mikilvægt mál, sjái menn að sér og fari að vinna með öðrum hætti. En við megum aldrei hætta að reyna. Við erum kjörnir hingað af þjóðinni til að vinna fyrir hana og það skulum við gera þó að stundum virðist það vera erfitt og ekki skila miklum árangri.