139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert annað í boði en að vera bjartsýnn og það er ekkert annað í boði en að halda áfram. Það er ekki í boði að gefast upp. Þetta mál hefur þann eina kost að ef menn draga það upp og skoða það er hægt að nota það til viðmiðunar um hvernig fólk á ekki að standa að málum eins og þessu. Það hefur þann eina kost.

Við ræddum alvarleika málsins áðan sem m.a. fólst í því að þegar menn ganga fram eins og raun ber vitni, og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi og ég get tekið undir, eru þeir að bruðla. Það sem hér er gert kemur niður á starfsfólkinu og þar af leiðandi þjónustunni og fólk missir störf sín. Í ofanálag er það blessaða ríkisstjórnin, sem er alveg rétt hjá hv. þingmanni að miðað við alla eðlilega mælikvarða deyr hún einu sinni til tvisvar í viku en er í ótrúlegri súrefnisvél sem ekki eru góðar fréttir fyrir þjóðina … (Gripið fram í.) Já, ætli við sjálfstæðismenn höldum ekki lífi í henni, við verðum að finna einhverjar leiðir til að hætta því en það er kannski aukaatriði. En í ofanálag með því að ganga fram eins og raun ber vitni hefur ríkisstjórnin komið í veg fyrir að heilbrigðisstarfsfólk fái vinnu. Þessi ríkisstjórn hefur lagt lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir að hægt sé að leigja út aðstöðu hér á landi til að taka á móti erlendum sjúklingum. Svokallað Ögmundarbann sem var við lýði og eftir því sem við best vitum hefur verið aflétt af hæstv. velferðarráðherra en skaðinn er skeður og í það minnsta er ekki komin nein slík starfsemi enn þá. Menn ganga ekki aðeins fram með þessum hætti og ógna þar af leiðandi atvinnuöryggi heilbrigðisstarfsfólks heldur hafa þeir með hinni hendinni (Forseti hringir.) komið í veg fyrir að það geti fengið önnur störf.