139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir meirihlutaáliti viðskiptanefndar um frumvarp um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Markmið þessa frumvarps er að tryggja innstæður almennra innstæðueigenda fyrir hugsanlegum skakkaföllum fjármálastofnana í framtíðinni. Helstu breytingar frá gildandi lögum eru þær að hækkuð er verulega lágmarkstryggingavernd innstæðueigenda en jafnframt sett á hana þak þannig að hún verður að hámarki 100 þús. evrur í stað þess að vera rúmlega 20 þús. evrur í gildandi lögum.

Annað mikilvægt ákvæði þessa frumvarps er að Tryggingarsjóður innstæðueigenda mun ekki njóta ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum en eins og menn þekkja úr Icesave-málinu hafa menn deilt um hvort þar væri um ríkisábyrgð að ræða eða ekki.

Í þriðja lagi er kveðið á um hraðari uppbyggingu sjóðsmyndunar en verið hefur í gildandi kerfi hjá okkur. Með frumvarpinu er lagt til að iðgjald fjármálastofnana í sjóðinn hækki verulega frá því sem nú er en það hefur verið 0,15% af öllum innstæðum sem njóta verndar. Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingar á þessu ákvæði þess efnis að almennt iðgjald verði 0,3% af innstæðum sem ekki eru undanþegnar tryggingavernd en að auki komi iðgjald sem hækki með aukinni áhættusækni viðkomandi fjármálastofnana. Samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans verður ekki lagt á svokallað markaðshlutdeildartengt iðgjald sem er liður í því að einfalda gjaldtökufyrirkomulagið auk þess sem það hlýtur að vera fagnaðarefni frá sjónarhóli íslenskrar tungu að losna við hugtakið markaðshlutdeildartengt iðgjald úr málinu.

Það er ljóst að hinn nýi innstæðutryggingarsjóður mun ekki geta varið innstæðueigendur fyrir kerfishruni í líkingu við þær hamfarir sem gengu yfir þjóðina haustið 2008 en það er svo sem ekkert sérkenni á því innstæðutryggingakerfi sem um er rætt. Það sama gildir um þá sjóði sem við þekkjum annars staðar í álfunni. Til að verjast kerfishruni þyrfti að líkum að taka 500 milljarða kr. til hliðar og setja í sjóð og slíkt er augljóslega ekki unnt miðað við stöðu fjármálamarkaðarins á Íslandi í nútíð og nánustu framtíð.

Færa má gild rök fyrir því að affarasælast fyrir okkur Íslendinga væri að tengjast sameinuðum samevrópskum innstæðutryggingarsjóði, ekki síst ef honum tengdist möguleiki á endurtryggingu vegna kerfisáhættu. Slíkt kerfi er hins vegar ekki til nema á teikniborðinu og á meðan svo er þurfum við að þreyja þorrann og góuna. Ég vil leggja áherslu á að uppbygging innstæðutryggingakerfi er langtímaverkefni. Það verður ekki reist á einni nóttu og á meðan verður það óhjákvæmilega viðkvæmt fyrir áföllum. Því er mikilvægt að reistar verði skorður við áhættusækni einstakra fjármálafyrirtækja og er tillagan um áhættuvegið iðgjald viðleitni í þá átt þar sem fjármálastofnanir greiði þeim mun hærra iðgjald sem starfsemi þeirra er metin áhættusamari fyrir innstæðutryggingarsjóðinn.

Það er rakið í áliti meiri hlutans að vátryggingakerfi fjármálamarkaðarins er byggt á nokkrum varnarlínum sem er þegar allt er lagt saman ætlað að reisa varnir fyrir almenning og aðra innstæðueigendur. Þar gegna Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn lykilhlutverkum með eftirliti með einstökum fjármálastofnunum annars vegar og hins vegar með fjármálakerfinu í heild með það að markmiði að stuðla að fjármálastöðugleika í landinu. Í þriðja lagi eru það svo lög um fjármálafyrirtæki sem ætlað er að tryggja traustan rekstur fjármálafyrirtækja en meðal breytinga sem gerðar voru á þeim lögum í kjölfar bankahruns var að auka valdheimildir Fjármálaeftirlitsins, draga úr útlánaáhættu í fjármálakerfinu með því að koma m.a. upp útlánaskrá hjá Fjármálaeftirliti og setja strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar, lánveitingar til tengdra aðila, auka ábyrgð stjórnenda, hæfi eigenda o.s.frv. Nýr innstæðutryggingarsjóður er svo einn hlekkur í þessari keðju en það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því og viðurkenna að hann einn og sér skapar ekki endanlega vörn fyrir innstæðueigendur á komandi missirum.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar umfram þær sem hér hafa verið nefndar, sumar efnislegar aðrar tæknilegar, og vísa ég til nefndarálits meiri hlutans í því efni.

Virðulegi forseti. Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í, segir gamalkunnugur málsháttur. Ný lög um innstæðutryggingar vekja upp sárar minningar um áratug afskiptaleysis og sofandaháttar þar sem eftirlit með gírugum áhættuleikurum í fjármálakerfinu brást illilega og varðstaðan um almannahagsmuni beið skipbrot. Þetta frumvarp leysir að sönnu ekki vanda íslenska fjármálakerfisins en það er áfangi á langri leið við að byggja traustari varnir um hagsmuni almennings og fyrirtækja í landinu.