139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir hennar innlegg í málið. Minn boðskapur í ræðunni var ekki síst sá að vekja athygli á því að frumvarpið hefur ekki það hlutverk að tryggja varnir í landinu fyrir áföllum í fjármálakerfinu og leggja áherslu á að það gerist ekki með einni aðgerð eða einu lagafrumvarpi heldur með samstillingu aðgerða úr nokkrum áttum. Skoðun mín er sú að þar skipti enn meira máli en tilvist innstæðutryggingarsjóðsins að við séum með regluverk og eftirlitskerfi sem er þannig saman sett að það dragi úr líkum á því að við sjáum aftur byggjast upp fjármálastofnanir sem eru það áhættusæknar að þær geti keyrt lífskjör almennings í landinu niður úr öllu valdi eins og við höfum orðið svo illilega vör við á liðnum missirum. Það er rétt, ég hef ekki þá trú að það innstæðutryggingakerfi sem boðað er í frumvarpinu dugi til að treysta varnir almennings en ég held að það sé hins vegar einn hlekkurinn í þeirri keðju sem við þurfum að mynda um kerfi okkar þannig að varnir almennings og fyrirtækja í landinu verði smám saman byggðar upp.