139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í núgildandi lögum um innstæðutryggingar er ekki kveðið á um ríkisábyrgð. Samt skilst mér að 9. apríl muni íslenska þjóðin greiða atkvæði um það hvort hún ætlar að fallast á niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í samningum um það að veita ríkisábyrgð á innstæðum. Af hverju í ósköpunum? Vegna þess að tilskipun Evrópusambandsins vegur svo þungt og þrýstingur annarra ríkja að menn gefast upp fyrir því. Hér er verið að búa til enn eina lagaflækjuna. Ef Íslendingar setja í sín lög bara sisvona að ekki sé ríkisábyrgð á þessum innstæðum og svo kemur tilskipun Evrópusambandsins og segir að ríki eigi að tryggja að til sé nóg fé. Hver er þá munurinn? Þetta rekst hvort á annað.

Ég held að menn séu að fara út á mjög hættulega braut og ég vil spyrja hv. þingmann: Er virkilega slík nauð að samþykkja þurfi þetta frumvarp? Var ekki hægt að fara veikari leiðina og vísa til þess sem Evrópska efnahagssvæðið er búið að samþykkja? Þetta er ekkert grín. Þegar menn samþykktu 33 milljarða til Íbúðalánasjóðs fyrir áramót án þess að hugsa sig um þá eru það alla vega peningar innan íslenska hagkerfisins sem einn Íslendingur fékk frá öðrum Íslendingi en þarna erum við að tala um að taka að okkur ábyrgð hugsanlega á erlendum innstæðum sem við getum ekki staðið við.

Við höfum fengið nóg af Icesave-dæminu og ég hélt við hefðum lært af því. Ég hélt að menn færu ekki lengra út í þetta fen að óhugsuðu máli. Þetta eru þvílíkar skuldbindingar. Svo finnst mér að rökrétt afleiðing af samþykkt þessa frumvarps sé sú að flutt verði fjáraukafrumvarp um að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð á 2.000 milljörðum.