139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við getum sagt að þetta frumvarp sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra reynir fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar að að koma í gegnum þingið sé gamall kunningi. Hann er ekki fyrsti hæstv. ráðherrann sem reynir þetta því að fyrirrennari hans í starfi reyndi þetta sömuleiðis en var gerður afturreka.

Það er svolítið sérstakt, virðulegi forseti, að þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur verið í þinginu vegna þessa máls, alla þá gagnrýni sem komið hefur fram sem ekki hefur verið svarað og allar þær áskoranir sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar hafa fengið um að gæta hagsmuna Íslendinga í þessu máli eru Brussel-ferðirnar notaðar í annað. Ekki einn einasti ráðherra hefur svo mikið sem reynt að útskýra hið augljósa, að þetta kerfi gengur ekki upp fyrir Ísland.

Sú tilskipun sem þetta byggir á er ekki komin inn í EES-samninginn. Af hverju ekki? Vegna þess að Norðmenn gæta sinna hagsmuna. Þvert á það sem núverandi ríkisstjórnarflokkar halda fram, og þá sérstaklega Samfylkingin sem reynir að halda því fram að EES-ríkin hafi engin áhrif á EES-samstarfið, er það hægt og Norðmenn eru búnir að tefja þetta mál núna í mjög langan tíma. Þeir eiga að vísu svo endalaust af peningum að þeir vilja ganga enn þá lengra en hér kemur fram og hafa efni á því út af olíusjóðnum sínum. Þeir hafa efni á því vegna þess að þeir dæla olíu upp úr jörðinni og ef mér skjátlast ekki eru þeir annað stærsta olíuútflutningsland heimsins. Það er bara sérstaða sem Norðmenn búa við en ekki aðrir og menn hafa efni á ýmsu ef þeir eru í þeirri stöðu.

Það er kaldhæðni að við séum að ræða þetta núna því að þjóðin greiðir atkvæði um þriðju Icesave-samningana 9. apríl og grunnurinn liggur í því að við þurftum vegna tilskipunar Evrópusambandsins að innleiða innstæðutryggingu í lög. Þegar það var gert, virðulegi forseti, fullyrði ég að enginn þingmaður sem var hér þá hafi séð fyrir það sem varð. Að vísu komu fullkomlega óábyrgir þingmenn sem enn eru á þingi, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Ögmundur Jónasson, með þá stórkostlegu hugmynd að binda þetta ekki við 20 þús. evrur, lágmarksupphæðina. Nei, þeir vildu að það yrði full ábyrgð tryggingarsjóðsins á öllum innstæðum. Sem betur fer var sú fáránlega hugmynd, sem hefði aldeilis reynst þjóðinni dýrkeypt, felld. Samfylkingin og VG komu ekki þessu fáránlega, vanhugsaða máli í gegn.

Nú eru þeir flokkar hins vegar við stjórnvölinn og aftur erum við að takast á við þessa gölluðu tilskipun Evrópusambandsins. Evrópusambandið tók á henni í kjölfar bankahrunsins og ákvað að gera slæma tilskipun enn þá verri. Það er augljóst að það er þekktur vandi um alla álfuna í tengslum við þessa innstæðutryggingu. Þetta kerfi var byggt upp fyrir daga internetsins og þá var ekki jafnviðamikil alþjóðleg fjármálastarfsemi og núna. Það voru engin vísindi á bak við töluna 20.887 evrur. Ég ætla ekki að útskýra fyrir mönnum hvaða vandræði þessi Evrópusambandstilskipun hefur leitt af sér, sérstaklega fyrir okkar þjóð, því að menn geta reynt að slá einhverjar vinsældakeilur með því að tala illa um bankamenn til eða frá. Menn geta alveg gert það en kjarni málsins er að þetta er Evrópusambandstilskipun sem við þurftum að taka upp. Í því liggur vandinn.

Hér situr hv. þm. Magnús Orri Schram sem hélt hér eina af heittrúarræðum Evrópusambandssinna í dag, (Gripið fram í: Eldmessu.) eldmessu kallaði hann hana, það er rétt, þetta er orðið algjörlega eins og sértrúarsöfnuður, þessir öfgasinnar sem vilja að Ísland fari í Evrópusambandið, alveg sama á hverju gengur. Menn eru fullkomlega búnir að týna sér. (Gripið fram í: Trúa á sinn guð.) Það er öllu fórnað, ef það að tala niður krónuna þjónar þeim hagsmunum að komast inn skal krónan töluð niður. Ef innleiða þarf handónýtt innstæðutryggingakerfi sem gengur ekki upp skal það gert án nokkurrar gagnrýninnar hugsunar.

Reynir einhver úr þessum hópi að færa rök fyrir því að þetta sé hægt? Nei. Gerði hv. þm. Skúli Helgason það, framsögumaðurinn? Nei. Þessi tilskipun var gölluð og handónýt með 20.887 evrum með veikara orðalag um aðkomu ríkisins, og hvernig dettur mönnum þá í hug að það sé í lagi að hækka trygginguna úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur á reikning, úr 3 milljónum í 16 milljónir, þegar skýrar er kveðið á um að ríkið eigi að sjá um fjármögnun sjóðsins ef eitthvað kemur upp á? Ef þetta gamla kerfi sem var veikara með lægri fjárhæð gekk ekki upp, hvernig dettur mönnum í hug að þetta nýja geri það? Hvernig dettur mönnum það í hug, virðulegi forseti? Hefur einhver í þessum sal, einhver gestur eða nefndarmaður hv. viðskiptanefndar reynt að færa rök fyrir því að þetta sé hægt? Nei. Þetta skal bara gert möglunarlaust vegna þess að öllu er fórnandi til þess að ganga í Evrópusambandið.

Það eru tvö ár síðan menn komu með þetta fyrst í þingið. Ef menn kæmu hér og segðu: Já, við erum búin að reyna hvað við gátum, (Gripið fram í: Ertu á móti EES?) við töluðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, útskýrðum hið augljósa en niðurstaðan er sú að við getum ekkert meir, væri kannski hægt að tala um hvað væri hægt að gera í tengslum við það. En, nei, menn hafa ekki aulast til að sitja einn fund um þetta stóra hagsmunamál. Svo segja menn: Þetta er náttúrlega allt annað líf vegna þess að núna eru í gildi yfirlýsingar ráðherra sem ábyrgist allar innstæður en nú erum við bara með 100 þús. evrur, 16 milljónir á reikning. Við fengum upplýsingar um það í hv. viðskiptanefnd hversu hátt hlutfall af innstæðunum það er, heil 95%. Með því að keyra þetta í gegn lækka menn meinta áhættu, sem er ekki bundin í lög, um 5%.

Virðulegi forseti. Ég er búinn að halda margar ræður um þetta mál, ég er búinn að skrifa einhverjar greinar, ég er búinn að ræða þetta örugglega í marga klukkutíma í hv. viðskiptanefnd. Eftir allan þennan tíma vildi ég gjarnan fá málefnaleg rök fyrir því hvernig menn ætla að framkvæma þetta, en hef enn ekki fengið. Við erum búin að semja einhverja endalausa rannsóknarskýrslu sem í grófum dráttum gengur út á að það vantaði gagnrýna hugsun, menn vantaði að áhættugreina og horfast í augu við raunveruleikann. Í orði kveðnu ætla allir að gera miklu betur, breyta vinnubrögðum, gera þau faglegri og hvað þetta heitir allt saman. Hver er niðurstaðan? Þetta er haft í flimtingum eins og þetta sé eitthvert smámál. Menn hafa ekki setið einn einasta fund, virðulegi forseti, til að benda á sérstöðu Íslands.

Fyrir þá sem þekkja málið ekki er rétt að taka fram að tryggingar eru alltaf eins. Það er alveg sama með innstæðutryggingarsjóðinn og allar aðrar tryggingar. Þær ganga út á að dreifa áhættu. Ef við værum 10 þúsund hérna inni gætum við hugsanlega tryggt ýmislegt. Við mundum hvert og eitt leggja fram eitthvað lítið sem yrði þá stórt og ef eitthvað kæmi upp á hjá einhverju okkar væri hægt að bæta það. Í þjóðveldinu var þessi regla á Íslandi, það er löng hefð fyrir tryggingum. Þá var það þannig í hverjum hreppi að ef bær brann lögðu allir íbúarnir í hreppnum eitthvað fram til að bæta viðkomandi einstaklingi skaðann. Það voru ekki greidd iðgjöld heldur var bætt með þeim hætti. Ef hins vegar kviknaði tvisvar í hjá viðkomandi einstaklingi fékk hann ekki neitt.

Maður býr hins vegar ekki til neinar tryggingar þegar maður er með þrjá aðila. Á Íslandi erum við með þrjá banka sem eru með allar innstæðurnar. Hér talaði hv. þm. Skúli Helgason um að ekki væri hægt að koma í veg fyrir kerfishrun. Nei, nei, það vita allir. Innstæðutryggingakerfið kemur hvergi í veg fyrir kerfishrun, hvergi í heiminum, en hugmyndin er sú að kerfið er með þúsundir fjármálastofnana undir, í það minnsta hundruð, og innstæðutryggingarsjóðurinn á að geta komið í veg fyrir að einn og einn fari á hausinn eins og það er kallað.

Við Íslendingar erum bara ekkert í þeirri stöðu. Hér skiptist markaðurinn nokkurn veginn í þrennt og fer fjármálastofnunum fækkandi. Hlutfall innstæðueigenda í Landsbankanum fór úr 25 í 30% þegar hann yfirtók Sparisjóð Keflavíkur, en Sparisjóður Keflavíkur er meira en einn sparisjóður. Ef ég man rétt er hann 1/3 af sparisjóðakerfinu. Ef einn af þessum þrem fellur mun það taka innstæðutryggingarsjóðinn upp undir 100 ár að safna upp í hann því að hann mun byrja á núlli. Samkvæmt þessu frumvarpi á að deildaskipta sjóðnum og menn ætla að hafa sérdeild, Icesave-deildina, sem væntanlega verður gjaldþrota. Jafnvel þótt aðrar leiðir verði færar geta menn þurft að grípa greiðslur frá skattgreiðendum inn í þá deild ef þeir samþykkja það samkomulag sem nú liggur fyrir. Síðan byrja menn með nýja deild á núlli og við skulum vona það að engin þessara þriggja fjármálastofnana falli á næstu áratugum.

Nú kynni einhver að segja að það væru bara engar líkur á því að bankar féllu. Það er að vísu það sem var sagt áður, en við Íslendingar höfum nú reynslu af því að fjármálastofnanir geta fallið. Ekki þurfti þetta bankahrun til, það hefur gerst áður í sögunni. (Gripið fram í: Alþýðubankinn.) Hér er nefndur Alþýðubankinn, ég get nefnt gamla Íslandsbanka og Ávöxtun þannig að það er því miður ekkert nýtt í þessu.

Ríkisstjórnin hefur stefnu sem heitir fyrningarleið í einum málaflokki, í sjávarútvegsmálum. Nú er það algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að ef ríkisstjórnin framkvæmir þessa stefnu sína, fyrningarleiðina í sjávarútvegi, mun ríkisbankinn Landsbankinn ekki þola það. Landsbankinn er með allt of hátt hlutfall í lánum til sjávarútvegs og hann mun ekki þola það ef fyrningarleiðin verður farin. Auðvitað þola sjávarútvegsfyrirtækin það ekki og það mun koma beint niður á lánastofnuninni. Það er því stefna ríkisstjórnarinnar að láta reyna á tryggingarsjóðinn.

Það kemur fram með réttu að það er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að ekki sé ríkisábyrgð á tryggingarsjóðnum. En eins og ég nefndi, virðulegi forseti, er ein af breytingunum í tilskipuninni sú að það er verið að tryggja fjármögnun innstæðutryggingarsjóðsins ef og þegar hann þarf að taka lán til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Það er a.m.k. túlkun meiri hlutans á þessu nýja orðalagi. Nú getur kannski einhver útskýrt fyrir mér hvernig þetta er eitthvað annað en ríkisábyrgð. Innstæðutryggingarnar eru 1.500 millj. kr., u.þ.b. ein þjóðarframleiðsla, og það hvernig innstæðutryggingarsjóður ætlar að reiða fram nokkur hundruð milljarða við fall stórra bankastofnana, sjóður sem nær 5–7 milljörðum í iðgjöld á ári, án þess að ríkið komi að því er mér hulin ráðgáta.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég er búinn að segja allt sem hægt er að segja um þetta mál. Þetta er mjög einfalt. Það getur vel verið að okkur sé nauðugur sá kostur að það verði látið reyna á þetta, það getur vel verið ef við vinnum þetta eins og fólk, reynum að gæta hagsmuna Íslendinga, að við verðum í þeirri stöðu. En við vitum það ekki, virðulegi forseti. Það er svolítið sérstakt að þeir aðilar sem trúa hvað heitast á Evrópusambandið og tala hvað harðast fyrir því láta ekki reyna á meintan sveigjanleika Evrópusambandsins sem í orði kveðnu tekur tillit til ólíkra aðstæðna og þar með talið þessara. Það þarf ekki að útskýra það í löngu máli fyrir neinum af framkvæmdastjórum Evrópusambandsins hvaða afleiðingar tilskipunin hafði fyrir Íslendinga, það þekkja allir í álfunni.

Það er fullkomlega óskiljanlegt af hverju hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa ekki gert sitt til að gæta hagsmuna Íslendinga í þessu máli. Þeir hv. þingmenn, virðulegi forseti, sem afgreiddu fyrri tilskipunina sem leiddi af sér Icesave-málið höfðu þá afsökun að þeir gátu trauðla séð þetta fyrir. Ég held að það sé ekki með neinni sanngirni hægt að segja að það fólk hefði átt að sjá fyrir allt það sem eftir gekk. Við sem erum hér í þessum sal sáum þetta hins vegar gerast. Við vitum nákvæmlega hverjar hætturnar eru og vitum nákvæmlega að það er verið að auka áhættuna með þessari breyttu tilskipun. Við höfum enga afsökun og ég hvet hv. stjórnarþingmenn enn og aftur til að horfast í augu við raunveruleikann og reyna í það minnsta að bera hönd fyrir höfuð okkar Íslendinga.