139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja hv. þingmann að hlusta á ræðuna ef hann fer í andsvar. Ég tók það sérstaklega fram að við vorum ekki að ræða um kerfisfall, það vita allir að enginn innstæðutryggingarsjóður þolir það. Það er alveg ótrúlegt eftir alla þá umræðu sem hefur verið í nefndinni og í þinginu að hér komi hv. þingmaður og leggi okkur sjálfstæðismönnum orð í munn. Við erum hvað eftir annað búin að fara yfir það að við erum að tala um það ef einn af þessum þrem fellur, en það er ekkert sem bendir til þess að þessi sjóður geti staðist það, ekki neitt. Það var enginn að tala um kerfisfall, við höfum aldrei gert það í þessari umræðu, aldrei.

Svo er það hvorki meira né minna en sjálft Evrópusambandið sem ætlar að koma með skýrslu 2014. Það ætlar ekki að koma með sjóð, það ætlar að koma með skýrslu. Það er þá vonin, skýrslan, og svo að það verði hægt að fá Íslendinga til að ganga í evrópska himnaríkið. Það er þá það sem liggur að baki þessu. Það er þá ágætt að þau rök komi fram.

Virðulegi forseti. Evrópusambandið hefur gefið út margar skýrslur og ég bið menn að vera með fastara land undir fótum en skýrslu sem kemur árið 2014. Það er í rauninni, ef við förum yfir þetta, fullkomlega óskiljanlegt hvernig menn komust að þeirri niðurstöðu á vettvangi Evrópusambandsins að hækka hlutfallið úr 20 þúsund evrum í 100 þúsund evrur miðað við það sem á gekk. Það er fullkomlega óskiljanlegt.