139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vantar eilítið upp á það í röksemdum 1. minni hluta sem eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvað beri að gera ef við ætlum ekki að samþykkja þetta frumvarp. Hver er lausn sjálfstæðismanna á vandamálinu sem við stöndum frammi fyrir, að við höfum hér ótakmarkaða ríkisábyrgð á öllum innlánum, (Gripið fram í: Nei.) þ.e. við erum ekki búin að skilgreina hvaða innlán ber að vernda, við erum ekki búin að skilgreina neitt þak á verndinni? Við komumst ekki út úr því með góðum hætti nema við búum til eitthvert kerfi sem getur staðið undir einhverjum áföllum. Það gerum við með því að safna í nýjan sjóð og skilja við þann gamla sem er orðinn gjaldþrota vegna Icesave-málsins.

Hvernig hyggjast sjálfstæðismenn losna við ótakmarkaða ríkisábyrgð sem er falin í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? Hér er eitt skef á réttri leið til að losna undan þeirri ábyrgð og þessi sjóður getur gegnt mikilvægu hlutverki ásamt öðrum þeim breytingum sem við erum að gera á fjármálakerfinu.

Þingmaðurinn vék nokkuð að Evrópusambandinu og EES-tilskipunum í ræðu sinni. Mig langar í því sambandi að segja þetta: Við erum aðilar að EES og tökum þær tilskipanir sem samþykktar eru á þeim vettvangi inn í okkar lagagrunn. Er þingmaðurinn að leggja til að við tökum ekki upp tilskipanirnar? Er þingmaðurinn að leggja til að við segjum okkur úr EES-samstarfinu?

Ég vil ekki ganga í Evrópusambandið bara til að ganga í Evrópusambandið. (Gripið fram í: Jú, jú.) Ég tel að í Evrópusambandinu séu ýmsar lausnir á þeim vandamálum sem íslenska þjóðin glímir við í dag, þar á meðal krónuvandamálinu, að við búum hér við krónu innan hafta og komumst ekki út úr því öðruvísi en að taka upp nýja mynt. Þess vegna hef ég verið fylgismaður þess að ganga í Evrópusambandið. Evrópusambandið kemur ekki til með að leysa öll okkar vandamál en hluti af þeim vandamálum sem hin íslenska þjóð stendur frammi fyrir leysist ef við göngum í Evrópusambandið og ef okkur tekst að ná haganlegum og góðum samningum um þau álitamál sem snerta okkur, t.d. hvað varðar sjávarútveg og landbúnað.