139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet nú hv. þingmann til að kynna sér málefni Evrópusambandsins og sameiginlega stefnu í sjávaútvegs- og landbúnaðarmálum ef hann hefur áhuga á því. Það er einfalt.

Síðan er hitt, ég hvet líka hv. þingmann til að kynna sér hvernig ríkisábyrgðir koma til. Við höfum ekki samþykkt hér á þingi neina ríkisábyrgð varðandi innstæðutryggingar og þar af leiðandi er engin ríkisábyrgð á innstæðutryggingum.

Hv. þingmaður spyr: Hver er lausn sjálfstæðismanna? Hversu oft erum við búin að segja í þessum þingsal, hversu oft erum við búin að segja í hv. viðskiptanefnd að menn eigi að byrja á því, alla vega byrja á því að reyna að gæta hagsmuna Íslendinga á þessum vettvangi.

Ég var í ríkisstjórn og við vorum að eiga við ESB-tilskipun um lyfjamál sem hefur haldið hér lyfjaverði háu og komið upp haftaverslun með lyf. Ég fór sem ráðherra og talaði við þá framkvæmdastjóra í framkvæmdastjórninni sem höfðu með málið að gera af því að ég var að gæta hagsmuna Íslendinga. Það hafði nokkur áhrif þó að því hafi ekki verið fylgt eftir af núverandi ríkisstjórn.

Ég sagði, ef hv. þingmaður hefur hlustað á ræðu mína, að ef menn hefðu hunskast til að fara og bera upp hagsmuni Íslendinga á þessum vettvangi og kæmu svo heim og segðu: Heyrðu, við náðum engum árangri, þá gætum við kannski farið að ræða hvernig við tökum á því, því að það vita allir á vettvangi Evrópusambandsins að þetta gengur ekki upp. Ef við neyðumst til að gera þetta, ef við erum pínd til að gera þetta með þessum hætti, væri þá ekki skynsamlegra að greiða áfram í eina deild þannig að það fari þá upp í hugsanlega einhverja Icesave-skuld, ef hún kemur til?

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig, því miður, og hv. þingmaður veit það, að ef menn eru með fullkomna glýju, Evrópusambandsglýju, geta menn einhvern veginn ekki tekist á við að gæta hagsmuna (Forseti hringir.) Íslendinga og það er nefnilega þannig að í Evrópusambandinu gæta allar þjóðir sinna hagsmuna. (Forseti hringir.) Norðmenn gæta sinna hagsmuna en við erum með ríkisstjórn sem telur að það væri til þess fallið að móðga sjálft Evrópusambandið ef við gerðum það.