139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga er það frumvarp sem við ræðum hérna núna, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eitthvert það allra versta sem rekið hefur á fjörur Alþingis á þessu löggjafarþingi og sér varla á svörtu í tilviki þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem nú er við völd. Ég verð að taka undir það með hv. þingmanni að ég get ekki séð annað en að þetta frumvarp veiti innstæðueigendum ekkert annað en falska vernd. Með þessu frumvarpi er í mínum huga ekki verið að tryggja innstæður fólks í bönkunum við fall þeirra. Á Íslandi eru þrír stórir viðskiptabankar og miðað við þá útreikninga sem við sem sitjum í hv. viðskiptanefnd höfum í höndunum tekur upp undir 100 ár, heila öld, að safna í sjóð sem tryggir innstæður viðskiptavina eins af þessum þremur bönkum ef hann félli. Þetta er ekkert annað en fölsk vernd.

Ég tek undir með hv. þingmanni og geng reyndar lengra, þetta er ekkert annað en sýndarmennska. Í ljósi þess er hálfsúrrealískt að lesa 1. gr. frumvarpsins sem segir að markmið þessara laga sé að „veita eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis“. Ég sé ekki að í þessu sé nein vernd. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún geti leiðbeint mér um það og útskýrt hvort hún telji (Forseti hringir.) að þetta frumvarp og sú leið sem hér er farin geti undir einhverjum kringumstæðum gengið upp.