139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:50]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti 3. minni hluta viðskiptanefndar. Þó að álitin séu þrjú held ég að við í minni hlutanum séum nokkuð sammála um eitt, að í þessu frumvarpi felist falskt öryggi fyrir innstæðueigendur og að þetta sé aðeins lítill hluti af því sem þarf að gera til þess að koma á raunverulegum tryggingum á innlánum hér innan lands.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var fjallað mjög ítarlega um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og komu ýmsar ábendingar þar fram um hvað þyrfti að gera til þess að standa betur að tryggingarsjóðnum. Það verður hins vegar að taka fram að að einhverju leyti er komið til móts við þær ábendingar í þessu frumvarpi, eins og að tryggja að sjóðurinn sé sem mest óháður ráðuneytinu, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, með því að starfsmenn ráðuneytisins sitji ekki í stjórn sjóðsins. Það er líka tekið á því sem bent var á eftir hrunið, að við höfum ekki nýtt okkur þær undanþágur sem voru í tilskipuninni um að takmarka innstæðutryggingar. Svo verða gerðar ákveðnar breytingar á því hvernig fyrirkomulagi útgreiðslu verður háttað ef kemur til gjaldþrots banka; raunar er líka verið að hækka þá tryggingu sem kom fram áður.

Mín niðurstaða af því að hafa unnið þetta frumvarp núna í annað skipti, þar sem ég sat líka í viðskiptanefnd þegar þetta mál kom fyrir Alþingi í fyrra sinn, sýnir og sannar að ríkisstjórn Íslands og meiri hlutinn sem stendur að þessu frumvarpi sem og Evrópusambandið sjálft hafa dregið mjög takmarkaðan lærdóm af því sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bankahruninu sjálfu, Icesave-málinu og ábyrgð á innlánum almennt.

Hér hefur aðeins verið farið í gegnum hver ástæðan er fyrir því að við erum með svona innstæðutryggingakerfi. Ég ætla samt aðeins að fá að rifja það upp. Bankar byggja starfsemi sína fyrst og fremst á því að taka á móti og varðveita innlán frá sparifjáreigendum og viðskiptamönnum þeirra. Bankarnir lána síðan út þessa fjármuni gegn vöxtum og þóknun. Það eru tekjurnar sem bankarnir hafa til að standa fyrir starfseminni. Útlánavextir bankanna eru alltaf hærri en innlánsvextir og sá vaxtamunur stendur undir rekstri og mögulega áhættu vegna útlánataps. Vandinn við þessa starfsemi er að útlán eru almennt til lengri tíma en innlán til skamms tíma og jafnvel þannig að fólk getur tekið út innlán sín með engum fyrirvara. Við sáum þetta gerast í aðdraganda hrunsins, ekki bara hér á Íslandi heldur víða annars staðar. Það getur valdið miklum lausafjárvanda hjá innlánsstofnun ef stór hluti innstæðueigenda ákveður að taka út innlán sín úr bankanum á sama tíma. Hugmyndin um innstæðutryggingar eða innstæðutryggingarsjóð varð einmitt til við slíkar aðstæður í kreppunni miklu í Bandaríkjunum þar sem innlánseigendur hópuðust í bankana til að taka út peningana sína og jafnvel í banka sem voru ekki í erfiðleikum en lentu í erfiðleikum í framhaldinu. Þá var fyrsta innstæðutryggingakerfinu komið á með hinni frægu Glass-Steagall löggjöf.

Ef menn skoða t.d. hvernig þessu er háttað í löndum sem hafa einhvern tímann lent í erfiðleikum þá virðast vera meiri líkur á því að þar séu ríkisábyrgðir eða hærri tryggingar til að koma í veg fyrir að upp komi vítahringurinn sem ég lýsti áðan. Ástæðan fyrir því að lönd koma á innstæðutryggingakerfi er til að draga úr líkum á bankaáhlaupi þannig að þó að fólk viti að fjármálastofnanir séu í erfiðleikum rjúki það ekki í bankann og taki peningana sína út og setji undir kodda. Það eykur stöðugleika fjármálakerfisins en á líka að tryggja að skattgreiðendur þurfi ekki að hlaupa undir bagga þegar fjármálafyrirtæki lenda í erfiðleikum, heldur borgi fjármálafyrirtækin sjálf það tap þegar fjármálafyrirtæki lenda í vanda eða greiðsluþroti.

Þessar forsendur eru ekki innifaldar í frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra og ekki heldur í tilskipunum Evrópusambandsins. Þar sem við erum aðilar að EES-samningnum og við höfum tekið að okkur að innleiða þær tilskipanir sem varða fjármálamarkaðinn skal ég viðurkenna að ég hef ákveðna samúð gagnvart hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og stjórnarmeirihlutanum sem vilja mjög gjarnan standa við skyldur okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu, jafnvel eins og í tilviki efnahags- og viðskiptaráðherra sem vill ganga enn þá lengra og hreinlega ganga í Evrópusambandið. Það leysir ekki þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, að það eru mjög miklir ágallar á því fyrirkomulagi sem Evrópusambandið hefur komið á varðandi innstæðutryggingar.

Í framhaldi af þeim áföllum sem hafa dunið yfir, ekki bara á Íslandi heldur í mörgum öðrum löndum, höfum við séð ríki hlaupa undir bagga með fjármögnun innstæðutryggingarsjóðanna. Við sáum það í Þýskalandi. Breski innstæðutryggingarsjóðurinn var ekki fjármagnaður fyrir fram. Breska fjármálaráðuneytið veitti mjög stórt lán til að sjóðurinn gæti staðið undir þeim áföllum sem hann varð fyrir þegar fimm bankar, þar á meðal íslensku bankarnir, lentu í örðugleikum. Síðan hafa þeir lagt á iðgjöld til þess að rukka inn kostnaðinn.

Þarna birtist það sem við höfum kannski einna helst gert athugasemdir við. Eins og fyrirkomulagið er sett upp hérna jafngildir það nánast ríkisábyrgð. Útreikningar hafa sýnt að það mun taka tugi ára að safna fjármunum til að mæta falli eins af stærstu viðskiptabönkum Íslands. Ég held að staðan sé nokkuð samhljóða í flestum öðrum ríkjum innan Evrópusambandsins eða EES-svæðisins. Þetta er raunar brot á, að mig minnir, 61. gr. EES-samningsins þar sem er einmitt fjallað um nánast bann við ríkisábyrgð eða ríkisaðstoð af þessu tagi. Ef við horfum t.d. á hvaða lausn væri hugsanleg fyrir evrópskan fjármálamarkað og þá Evrópusambandið — það hefur komið mér mjög á óvart hvað þeir virðast hafa verið tregir til að skoða þetta mál — eru einu breytingarnar, sem lagðar hafa verið til og samþykktar í Evrópuþinginu, að samræma upphæðina þvert á öll löndin. Markmiðið með því er að koma í veg fyrir samkeppni á milli landa um hvert þeirra gæti boðið upp á bestu ábyrgðina en líka til að tryggja að hægt yrði að greiða peningana sem allra fyrst til innstæðueigenda þannig að þeim yrðu aðeins rórra.

Ég hef ekki séð neinar skýrslur eða formlegar tillögur þess efnis að koma eigi á sameiginlegu innstæðutryggingakerfi fyrir evrópskan fjármálamarkað. Við höfum heyrt af því í vinnu nefndarinnar með þetta frumvarp, að menn hafi rætt það, en lengra virðist það ekki vera komið.

Skoðum aðeins tvö lönd sem ég held að séu mjög áhugaverð hvað þetta varðar. Í Bandaríkjunum þar sem innstæðutryggingakerfið á uppruna sinn standa þúsundir fjármálafyrirtækja undir innstæðutryggingarsjóði þeirra. Þar er fyrirkomulagið meira að segja þannig að tveir sjóðir standa eiginlega undir fjármálakerfinu. Annars vegar eru um 8 þús. bankar sem borga í hinn svokallaða FDIC-sjóð og hins vegar borgar svipaður fjöldi af lánasamvinnufélögum í sérstakan tryggingarsjóð fyrir lánasamvinnufélög. Við sjáum líka hvað svona áföll geta í rauninni verið erfið því að þrátt fyrir þann gífurlega fjölda sem borgar í bandaríska innstæðutryggingarsjóðinn, annan þeirra eða báða, stefnir stóri sjóðurinn, sem er tryggður fyrir bankana og er með meginhluta af fjármálakerfinu undir, í að verða nánast tómur seinni part þessa árs held ég eða næsta árs miðað við áætlanir sjóðsins um þær fjármálastofnanir sem munu hugsanlega lenda í örðugleikum. Í Kanada eru hins vegar færri bankar starfandi, um 100 bankar, en líka töluverður fjöldi af lánasamvinnufélögum. Þar eru samt sem áður miklar takmarkanir á því hvernig innstæður eru tryggðar. Það er nú eitt af því sem ég ætlaði kannski að fjalla aðeins um. Við tryggjum innstæður í evrum en búum enn þá bara yfir krónunni, svo að ég ítreki það, þó að ákveðinn hluti stjórnarliða tali mjög mikið fyrir því að taka upp evruna. Þannig er það og við verðum að horfast í augu við að á næstu árum munum við vera með krónu óháð því hvort við verðum aðildarríki að Evrópusambandinu eða ekki.

Eftir bankahrunið virtist Evrópusambandið horfast í augu við að nauðsynlegt væri að koma á sameiginlegu eftirliti með fjármálafyrirtækjum. Sett hefur verið á stofn hið svokallaða European Banking Authority, European Securities and Markets Authority og European Insurance and Occupational Pensions Authority. Líka hefur verið unnið að tillögum að því að vera með sameiginlegt regluverk varðandi efnahagsstjórnun til að tryggja meiri stöðugleika fyrir evruna, en samt heyrist að koma eigi á stofn sameiginlegu innstæðutryggingakerfi sem viðbrögð við áföllum til að tryggja stöðugleika og enn á ný er fátt eitt að frétta af sameiginlegum innstæðutryggingarsjóði. Það er mjög einkennilegt vegna þess, eins og ég nefndi í upphafi, að innstæðutryggingakerfinu var einmitt komið á sem viðbragði til að tryggja stöðugleika. Það er því hluti af því gangvirki sem lönd hafa tekið upp til þess að draga úr líkum á bankaáhlaupi og auka fjármálastöðugleika. En þingmenn og ráðherrar í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðast telja ásættanlegt hvernig kerfið virkaði. Því er ég algjörlega ósammála.

Vandinn liggur í löggjöfinni sem við erum að fara að samþykkja. Það væri best ef við sæjum fyrir okkur að geta farið í samstarf við aðrar þjóðir um sameiginlegan evrópskan sjóð. Það virðist ekki vera í bígerð á næstunni, enda mundu aðildarríkin þurfa að koma sér saman um slíkt og það gæti tekið töluverðan tíma. Líka hefur verið talað um að það væri hugsanleg leið að leita eftir endurtryggingum vegna kerfisáhættu en hún er mjög mikil á Íslandi. Þá spyr maður sig náttúrlega: Hefur einhver áhuga á að endurtryggja Ísland, sérstaklega í ljósi þeirra áfalla sem við urðum fyrir fyrir ekki svo löngu síðan?

Ég legg til í nefndaráliti mínu að við tökumst sjálf á við þessa stöðu. Það þarf að fara í mun umfangsmeiri lagabreytingar en við höfum þegar unnið í gegnum Alþingi til að tryggja öryggi innstæðueigenda og draga úr kerfisáhættu. Það kann að vera nauðsynlegt að gera forgang innstæðna við gjaldþrot varanlegan líkt og bent var á í skýrslu þingmannanefndarinnar. Að vísu værum við þá að gera eitthvað varanlegt sem menn hafa bent á að er hvergi annars staðar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Að vissu leyti hefur líka verið farið á svig við þetta með því að leyfa að setja veð eins og í tilfelli Landsbankans fram fyrir innstæðurnar.

Ég tel að það þurfi að setja hámark og skoða hversu hátt hlutfall innlána getur verið í einni innlánsstofnun til að dreifa áhættunni. Sama gildir um að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Það hefur komið fram að það að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka mundi þýða að um 400 milljarðar færu út af efnahagsreikningum stóru bankanna þannig að það mundi minnka þá töluvert. Í grein sem ég las nýlega eftir Anne Sibert, sem hún skrifaði fyrir um ári, bendir hún einmitt á að kerfisáhætta sé ekki bara í löndum með mjög stórt bankakerfi, sem sé mun stærra en landsframleiðsla í viðkomandi landi, heldur virðast stærstu bankarnir líka vera þeir sem eru áhættusæknastir og sækja harðast fram í að stækka út fyrir landsteinana. Hún nefndi það sem mögulega leið fyrir litlu löndin að setja upp kerfi sem drægi úr hvötunum fyrir banka að verða stærri en einhver ákveðin mörk. Hún nefndi bæði möguleika á að nota skattkerfið þannig að hærri skattar væru eftir því sem bankarnir væru stærri og eins í því tilviki, af því ég er líka búin að nefna tvær aðrar tillögur varðandi hámörk og hversu hátt hlutfall innlánin geti verið í einni innlánsstofnun, að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Það var gert á sínum tíma — með Glass-Steagall löggjöfinni aðskildu menn starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

Ég hef líka velt fyrir mér hvort nauðsynlegt sé, til að draga úr áhættusækni, að setja hámark á hversu mikið bankar geti skuldsett sig. Manni finnst stundum af orðræðunni, þegar menn tala um mikilvægi þess að hægt sé að sækja fjármuni út fyrir landsteinana aftur, að menn horfi mikið til þess að geta byrjað að skuldsetja sig upp á nýtt. Ég hef haft af því töluverðar áhyggjur. Ég hefði talið að það sem við þyrftum fyrst og fremst að horfa til væri að nýta þá fjármuni sem við eigum og borga niður skuldir.

Síðan er annað sem ég mundi vilja impra aftur á, sem ég nefndi fyrr í ræðu minn, varðandi þær takmarkanir sem Kanadamenn setja t.d. á með því að tryggja bara innstæður í kanadískum dollurum. Við erum aðili að EES-samningnum og eins og menn hafa bent á erum við með okkar eigin krónu en við þurfum að innleiða, samkvæmt lagasetningu sem kemur frá Evrópuþinginu, tryggingu sem er ekki í íslenskum krónum heldur í evrum sem gerir það að verkum að mikil innbyggð gengisáhætta er í því fyrirkomulagi. Þetta hafa önnur lönd greinilega gert sér grein fyrir og því takmarkað sig við að tryggja innstæður í eigin gjaldmiðli. Þegar ég skoðaði fyrirkomulagið í Bandaríkjunum gat ég ekki fundið hvort þetta væri tilgreint jafnnákvæmlega þar og í Kanada þar sem sá fyrirvari að aðeins séu tryggðar innstæður í kanadískum dollurum er mjög áberandi. Þegar ég skoðaði frumvarpið sá ég að við setjum ekki þau takmörk að tryggja aðeins innstæður í krónum eða innstæður í krónum og evrum, því að það eru þær myntir sem við fáumst við, heldur horfum við fyrst til tegunda innstæðnanna. Eins og við fengum að upplifa í hruninu má reikna með að gengi íslensku krónunnar veikist verulega ef banki fellur, sérstaklega ef við horfum til eins hinna þriggja stóru, og hámarkstryggingin er tilgreind í evrum þó að hana eigi að umreikna í íslenskar krónur.

Ég held miðað við það sem maður heyrði í framsöguræðu hv. þm. Skúla Helgasonar og svörum hans við andsvari hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur og raunar líka af andsvörum varaformanns viðskiptanefndar, hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, að menn hafi ekki mjög mikla trú á þessu frumvarpi. Þetta er einhver skyldurækni, eitthvað sem þarf að gera. Ég tel að við getum gefið okkur meiri tíma. Við getum farið betur yfir þetta mál og tryggt að samhliða því að verið sé að setja á stofn þennan nýja innstæðutryggingarsjóð verði samþykkt lög sem takmarki kerfisáhættuna og geri það að verkum að við getum verið aðeins rórri þegar frumvarpið fer héðan frá Alþingi.