139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[20:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans sú furðulega forsenda að það sé ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi og þá er vísað til ummæla vissra ráðherra sem að sjálfsögðu skuldbinda ekki ríkissjóð vegna ákvæðis í stjórnarskránni.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Getur verið að hann sé sammála þeirri forsendu sem leiðir til þeirrar nauðhyggju hjá hv. meiri hluta, og hæstv. ríkisstjórn líka, að menn séu þegar komnir með ríkisábyrgð — sem er rangt — og það leiði til þess að menn þurfi að setja ný lög og skilgreina hana og þrengja? Það er mjög hættulegt að vera með ranga forsendu fyrir ákvörðun sinni.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann sammála þessu?

Nú erum við nýbúin að lenda í ógurlegum vandamálum út af Icesave, út af því að sumir telja að okkur beri skylda til að borga það. Lagt er til að skattgreiðendur greiði þetta. Þjóðin greiðir reyndar um það atkvæði 9. apríl. Hvað segir hv. þingmaður um þá stöðu? Getur hún ekki jafnvel komið upp miðað við þær hugleiðingar sem hv. þingmaður er með?