139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurningarnar. Þær eru að vísu svo umfangsmiklar að við þyrftum að fara í nokkur andsvör í viðbót ef ég ætti að geta svarað þeim.

Ég ætla hins vegar aðeins að fá að renna í gegnum spurninguna úr fyrra andsvari hv. þm. Péturs Blöndals sem varðar forganginn hjá innstæðum við þrot.

Nú var verið að flytja mál þar sem einmitt var fjallað um þær breytingar sem voru gerðar á forganginum fyrir íslenskum dómstólum. Það var nefnt að sá forgangur sem hefur verið settur hér á þekktist hvergi. Fyrirkomulagið í Bandaríkjunum er þannig að bandaríski innstæðutryggingarsjóðurinn hefur mjög miklar valdheimildir til þess að færa innstæður úr bankanum sem er í erfiðleikum og yfir í annan banka og taka þar eignir út úr gamla bankanum sem tryggingar fyrir innstæðunum. Maður getur ekki skilið þetta öðruvísi en svo að það sé ákveðinn forgangur við þrot banka í Bandaríkjunum af því að þeir eru líka með, sem er mjög áhugavert, mjög öfluga greiningar- og eftirlitsdeild innan bandaríska innstæðutryggingarsjóðsins. Hún fylgist mjög náið með því sem er að gerast innan einstakra banka og síðan er hægt að sjá upplýsingar um það á vefsíðunni, ekki um stöðu einstakra banka heldur áætlun um hversu margir bankar munu lenda í erfiðleikum á næstu mánuðum. Sjóðurinn virðist hafa mjög góða yfirsýn yfir það nákvæmlega hvernig staðan er í hverjum banka fyrir sig. Þar af leiðandi er hann mjög fljótur að bregðast við erfiðleikum til að tryggja að fólk geti nálgast innstæðurnar sínar (Forseti hringir.) strax daginn eftir.

Varðandi spurninguna um Icesave og ríkisábyrgðina (Forseti hringir.) fór ég í ræðu minni yfir skoðanir mínar á ríkisábyrgð en (Forseti hringir.) hef því miður ekki tíma til að ítreka þær í þessu andsvari.