139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir málefnalega ræðu þar sem hún fer yfir það sem hún hefur við frumvarpið að athuga, bæði kost þess en kannski aðallega löst. Ég geri ekki athugasemd við það að menn hafi áhyggjur af því að þessi sjóður sem slíkur sé hin eina endanlega lausn á þeim vanda sem við okkur blasir. Ég fór reyndar yfir það í ræðu minni að ég tel að þetta sé einungis einn hlekkur í þeirri varnarkeðju sem við þurfum að byggja um fjármálakerfi okkar; og mikilvægt að menn séu ekki að reisa væntingar sem þessi sjóður getur ekki staðið undir einn og sér.

Mig langaði að spyrja út í samhengi tveggja tillagna sem hv. þingmaður leggur til í áliti sínu. Það lýtur að hugmyndinni um að setja annars vegar hámark á það hversu hátt hlutfall innlána getur verið hjá einni innlánsstofnun og hins vegar að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hefur ekki áhyggjur af því að ef slíkur aðskilnaður færi fram milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka mundi áhætta innstæðutryggingarsjóðsins aukast því að þá liggur fyrir að hlutfall innstæðna af heildarfjármögnun viðkomandi innlánsstofnunar mundi hækka. Ég fæ ekki betur séð en það hefði þær afleiðingar að áhættan fyrir innstæðutryggingarsjóðinn væri meiri fyrir vikið en ekki minni.