139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Grafalvarleg staða hefur verið uppi í viðræðum aðila vinnumarkaðarins við ríkisstjórnina. Ríkisstjórnin hefur verið ófáanleg til að grípa til nauðsynlegra aðgerða svo samningsaðilar geti með einhverri vissu samið sín á milli um kaup og kjör til þriggja ára eins og hugur þeirra stendur til.

Nú fréttist að von sé á minnisblaði frá ríkisstjórninni á morgun um viðbrögð við kröfu samningsaðila. Maður getur ekki annað en vonast til þess að það verði meira en innihaldslaust plagg eins og því miður hefur verið raunin fram til þessa, að hér sé ekki um að ræða endurnýtingu og endursetningu á áður fram komnum verkefnum. Í máli hæstv. forsætisráðherra í útvarpsfréttum í dag kemur fram að ýmislegt verði lagt fram í þessu tiltekna minnisblaði á morgun, það verði sýndar vegaframkvæmdir, það eigi að auka fjárfestingarstig úr 13% upp í 18%. Í því ættu að felast verulegar fjárfestingar.

Hæstv. forsætisráðherra nefndi álverið í Helguvík sem dæmi. Maður hlýtur að spyrja hvort þá sé samkomulag á ríkisstjórnarheimilinu um að í það verkefni skuli farið og jafnframt í ljósi stöðu orkuöflunar hvort menn séu búnir að tryggja eða geti tryggt nauðsynlega orku í þetta mikilvæga verkefni. Eins hefur þetta tiltekna verkefni verið nefnt látlaust frá sumrinu 2009 en ekkert bólar á því enn.

Enn fremur kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að breyta skyldi tekjuskatti einstaklinga og lækka tryggingagjald. Í þessu skattamáli hefur ríkisstjórnin talað austur og vestur. Hæstv. fjármálaráðherra talar fyrir því að hér eigi að hækka skatta. Hæstv. forsætisráðherra segir að lækka skuli skatta. Það er ómögulegt fyrir nokkurn mann að gera sér grein fyrir því hver stefna ríkisstjórnarinnar er í veigamiklum efnahagsmálum. (Forseti hringir.)

Ég vonast svo sannarlega til þess að það tiltekna minnisblað sem birtist á morgun verði eitthvað meira en orðin tóm sem því miður hefur verið allt of algengt og raunar verið regla þegar (Forseti hringir.) kemur að þessari ríkisstjórn.