139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þennan óskaplega mikla áhuga á fjármálum Sjálfstæðisflokksins. Ég get upplýst hv. þingmann um að Sjálfstæðisflokkurinn og formaður hans, nýkjörinn vorið 2009, tók ákvörðun um að endurgreiða umrædda styrki án þess að nokkur lagaskylda hafi lotið að því. Það var ákvörðun sem Sjálfstæðisflokkurinn tók að eigin frumkvæði vorið 2009.

Styrkirnir, samtals að upphæð 55 milljónir, verða endurgreiddir með jöfnum árlegum afborgunum og greiðslum. Þegar hefur verið lokið við tvær slíkar greiðslur, 2009 og 2010. Styrkirnir eru endurgreiddir að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og án þess að nein krafa um slíkt hafi komið neins staðar að. (Gripið fram í.) Frá gildistöku laganna um fjármál stjórnvalda ársins 2007 hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið við allar sínar skuldbindingar gagnvart þeim og Ríkisendurskoðun. Það má lesa sér til um fjármál Sjálfstæðisflokksins eins og annarra stjórnmálaflokka á vef Ríkisendurskoðunar og það er furðulegt að þingmaðurinn hafi ekki byrjað á því áður en hann hóf þessa fyrirspurn.

Þegar ársreikningar flokkanna eru lesnir kemur hins vegar í ljós að Vinstri hreyfingin – grænt framboð stendur langverst að vígi með verulegt rekstrartap, miklar skuldir og 122 milljóna neikvætt eigið fé. Það er nefnilega þannig að það er ekki einungis að hugmyndafræði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi beðið afhroð, heldur er Vinstri hreyfingin – grænt framboð tæknilega gjaldþrota stjórnmálaflokkur. (Gripið fram í: … hugmyndafræðilega …) [Kliður í þingsal.] [Hlátur í þingsal.]