139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er hreint út sagt ótrúlegt að fylgjast með málflutningi Vinstri grænna í þessu Líbíumáli. Það er rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að það er munur á Sameinuðu þjóðunum og NATO. (Gripið fram í.) Munurinn er hvernig ákvarðanir eru teknar. Tekin var ákvörðun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Við Íslendingar eigum ekki aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þar var tekin ákvörðun sem ríkisstjórn Íslands ákvað að styðja.

Síðan er komið að annarri ákvörðun og það er ákvörðun um það hvort Atlantshafsbandalagið eigi að yfirtaka stjórn þeirra hernaðaraðgerða sem öryggisráðið samþykkti. Þá ber svo við að Ísland á ekki bara sæti við borðið, Ísland hefur tök og tækifæri til að stöðva þá ákvörðun, koma í veg fyrir hana með því að ýta á nei-takkann við það borð. Ríkisstjórn Íslands með Vinstri græna innan borðs ákvað að ýta ekki á nei-takkann, heldur að styðja þessa ákvörðun. Ég styð þá ákvörðun líka. Ríkisstjórn Íslands ákvað að styðja þá ákvörðun og kemur nú annaðhvort uppfull af yfirgripsmiklu þekkingarleysi á þessum tveimur stofnunum og hvernig ákvarðanir eru teknar eða þá að þetta er heimóttarleg eftiráskýring notuð til að tala inn í einhvern róttækan hóp sem mun ekki sætta sig við eitt eða neitt á þessu sviði þegar allar ákvarðanir hafa verið teknar. Af hverju í ósköpunum ýtti vinstri græni fulltrúinn þarna ekki á nei-takkann? Vegna þess að þetta er eins og í Hjallastefnunni, í NATO er nefnilega ekki í boði að sitja hjá. Það er ekki í boði að segja: Við ætluðum ekki að styðja þetta, við fórum bara ekki gegn því. Það er ekki boðleg skýring, hv. þingmaður og hv. þingheimur, vegna þess að það virkar ekki þannig. (Forseti hringir.)

Staðreyndin er að það skiptir ekki máli hvort vinstri grænir eru í ríkisstjórn eða utan, (Forseti hringir.) þeir hafa ekki og munu greinilega aldrei beita sér í því að hafa áhrif á (Forseti hringir.) utanríkisstefnu Íslands. (Gripið fram í: Gjaldþrota stefna.) Gjaldþrota stefna. (Gripið fram í.)