139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir innleiðingu hennar á spurningunum. Eins og hv. þingmaður kom inn á var haldinn í morgun fundur með forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar þar sem rætt var um mögulegt framlag ríkisstjórnarinnar og hins opinbera til kjarasamningagerðar. Á þeim fundi var sagt að ríkisstjórnin mundi leggja fram slíka yfirlýsingu sem hv. þingmaður nefndi. Ég hef fulla trú á því á sama hátt og ég hef fulla trú á þessari ríkisstjórn (Gripið fram í: Já?) að í þeirri yfirlýsingu verði nægilega mörg jákvæð atriði (Gripið fram í.) og nægilega mikið af góðum málum og það eigi a.m.k. ekki að þvælast fyrir aðilum á vinnumarkaði að geta klárað kjarasamninga.

Auðvitað höfum við öll áhyggjur af því að samningar hafi ekki náðst. Þar koma mjög margir þættir að. En við verðum líka að muna að þetta eru þrátt fyrir allt samningar aðila sem eru frjálsir að því að gera samninga sín á milli. Sá hugsunarháttur að ríkið eigi alltaf að liðka til með alla hluti fyrir aðila vinnumarkaðarins er hugsunarháttur sem við þurfum aðeins að fara að endurskoða. Þessir aðilar eiga að gera frjálsa samninga. Þeir kalla nógu hátt eftir að fá að gera það (Gripið fram í.) og við eigum að virða þetta frelsi þeirra til að gera samninga.

Varðandi þann hugsunarhátt að það sé eitthvert verkefni ríkisstjórnarinnar að ryðja úr vegi hindrunum vísa ég slíkum yfirlýsingum hreinlega til föðurhúsanna. Það er ekki (Forseti hringir.) hlutverk ríkisstjórnarinnar að ryðja hindrunum úr vegi. (Gripið fram í.) Við erum með frjálsa aðila sem eru að gera samninga (Forseti hringir.) og við eigum að treysta þeim til þess.