139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum -- sanngirnisbætur -- styrkir til stjórnmálaflokka o.fl.

[14:31]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að tala um störf þingnefndar. Þar fer oft fram mesta og besta starf stjórnmálamanna nú um stundir á Alþingi. Ég vek athygli á því sem fram fór í hv. iðnaðarnefnd í gær þegar rammaáætlun um verndun og nýtingu var tekin út í fullkominni sátt. Það er til fyrirmyndar, og tímabært að stjórnmálamenn tali sig til sáttar í mjög mikilvægum málum eins og þegar kemur að verndun náttúrunnar og þeim orkunýtingarkostum sem þar eru fyrir hendi.

Þetta mál hefur verið til trafala um langt árabil í samfélaginu sakir þess ósættis sem hefur ríkt á milli aðila sem vilja annað tveggja, vernda eins mikið og hægt er eða virkja eins og hægt er.

Í hv. iðnaðarnefnd lögðust menn á eitt í gær eftir mikla og góða vinnu við að sækja fram til sáttar. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. formanni iðnaðarnefndar fyrir starf hans í þá veru, svo og reyndar öllum nefndarmönnum sem tóku þátt í þessari sátt. Það leiðir líka hugann að því að við þurfum að sækja fram til sáttar í fleiri málaflokkum í samfélaginu sem eru í óvissu og þar nefni ég sjávarútvegsmálin. (TÞH: Og Icesave-málið.) Við þurfum að sækja þar fram til sáttar. Ég vek athygli á því að stór hagsmunasamtök á borð við LÍÚ sem eru vel að merkja ekki nema 13% af Samtökum atvinnulífsins hafa haldið þessu máli, að mati þess sem hér stendur, í ákveðinni gíslingu. LÍÚ vill ekki gefa neinn afslátt af máli sínu að því er virðist af málflutningi þess. En hér verða allir að gefa afslátt, þar á meðal LÍÚ, enda er það skrifað (Gripið fram í.) inn í sátt Samtaka atvinnulífsins að engin sátt ríki innan (Forseti hringir.) þeirra um óbreytt kvótakerfi.