139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[14:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum nú til atkvæðagreiðslu um sameiningu tveggja stofnana sem er hið besta mál. Ágreiningur virðist hafa risið hér upp þvert á flokka um hvert heiti þessarar sameinuðu stofnunar eigi að vera. Ég kem hér upp til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þá tillögu sem Mörður Árnason hefur flutt. Ég tel að hann hafi fært prýðileg rök fyrir máli sínu. Ég tel að „embætti landlæknis“ eigi að vera heiti á þessari stofnun. Ég er íhaldssamur að þessu leyti og tel að við eigum að vera íhaldssöm í sumum efnum alveg þvert á flokka, frá því að vera yst til hægri og lengst til vinstri. Þess vegna legg ég það til í anda samstöðu innan þingsins [Hlátur í þingsal.] að við samþykkjum þessa tillögu Marðar Árnasonar sem hefur svo oft reynt að koma hér upp sem boðberi sátta eins og við þekkjum. [Hlátur í þingsal.] Nú skulum við sýna það hér í verki og styðja þennan hugprúða (Forseti hringir.) þingmann í þessu erfiða máli [Hlátur í þingsal.] sem við þurfum að taka ákvörðun um. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)