139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[14:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæðagreiðslu um að sameina tvær stjórnsýslustofnanir í eina sem við sjálfstæðismenn erum svona yfir höfuð ekki andvíg, en í þessu máli höfum við átalið vinnubrögðin og höfum haft um það langt og ítarlegt mál sem ég ætla ekki að endurtaka hér. (Gripið fram í: Gott.) [Hlátur í þingsal.] Sjónarmið okkar hafa ekki fengið miklar undirtektir eins og heyra má hér í frammíkalli þannig að okkur er nauðugur einn kosturinn að greiða ekki atkvæði í þessari atkvæðagreiðslu og munum sitja hjá.

Varðandi heitið og breytingartillögu hv. þm. Marðar Árnasonar verð ég að taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, íhaldssemi er góð hér sem annars staðar. (Gripið fram í: … þingmanninn …)