139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[14:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst að lokaspurningunni þá er það svo að við náum ekki farsælli lausn í þessu máli nema með góðu samkomulagi á milli ríkisins annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar. Reykjavíkurborg, sveitarfélagið, hefur skipulagsvaldið en það er ríkið sem er umsjónaraðili flugvallarins og flugvallarsvæðisins og notandi svæðisins. Þessir tveir aðilar þurfa að koma sér saman.

Um Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans hafa staðið miklar deilur í langan tíma og standa enn þótt heldur hafi lægt í seinni tíð. Hef ég grun um að þar valdi nokkuð sjóðþurrð opinberra sjóða hjá ríkinu annars vegar og borginni hins vegar og menn hafa farið að endurmeta marga hluti upp á nýtt, þar með framtíð flugvallarins. (Gripið fram í: Og verðgildi lóða.) Þetta blandast allt saman inn í þessa þætti.

Til stóð að reisa mikla samgöngumiðstöð við flugvallarsvæðið Öskjuhlíðarmegin, austan megin flugvallarins. Ríkið hefur núna fallið frá þeim áformum vegna andstöðu frá borgaryfirvöldum sem töldu þetta ekki henta eða passa inn í framtíðaráform um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu svo og vegna þess að Reykjavíkurborg hefur horft til þess að flugvöllurinn verði fluttur. Við hins vegar, ríkismegin, höfum verið á öndverðum meiði í samgönguráðuneytinu og nú innanríkisráðuneytinu. Ég hef verið þeirrar skoðunar mjög eindregið að Reykjavíkurflugvöll eigi ekki að flytja en við komumst ekki hjá því að stórbæta alla aðstöðu fyrir innanlandsflugið.

Þess vegna er tillaga okkar sú að reist verði nýtt húsnæði vestan flugbrautarinnar þar sem núverandi þjónustumiðstöð er (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og að þetta verði gert eins fljótt og kostur er. Við höfum átt viðræður við Reykjavíkurborg um þetta efni, ágætar viðræður, bæði fyrir áramótin og svo aftur núna í janúar. Ég hef trú á því að samkomulag náist um skipan til einhverra ára en Reykjavíkurborg vill halda í sínar hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar og við á hinn bóginn viljum halda í stefnu okkar um að flugvöllurinn flytji ekki. Þá þurfa menn að finna málamiðlunarlausn sem þjónar og gagnast innanlandsfluginu. Það verður ekki gert öðruvísi en með því að bæta aðstöðuna. Þetta er líka langódýrasti kosturinn. Þetta snýst ekki aðeins um flugstöðvarbygginguna heldur líka um svokölluð flugplön sem eru til staðar vestan megin flugvallarins við gömlu flugstöðina en þyrfti að gera frá grunni austan megin. Allt hnígur þetta því í sömu átt, þ.e. út frá fjárhagslegu sjónarmiði er hagstæðara að bæta þá aðstöðu sem fyrir er, reisa þar nýtt hús. Við erum tilbúin fyrir okkar leyti að horfa til óska Reykjavíkurborgar um að slík bygging væri auðfæranleg, ekki endilega grunnur grafinn niður til Kína heldur verði tekið tillit til hugmynda Reykjavíkurborgar um framtíðina. Þannig leysum við þetta mál með góðri samvinnu og málamiðlun þessara aðila í milli. (Gripið fram í: Málið leyst.) (Gripið fram í: Ráðherrann ræður.)