139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[14:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hæstv. innanríkisráðherra að það er afar mikilvægt að gott samkomulag sé á milli borgaryfirvalda og ríkisins þegar kemur að Reykjavíkurflugvelli. Ég vil líka benda á að staðsetning innanlandsflugsins í Reykjavík er hagsmunamál bæði fyrir landsbyggðina og einnig fyrir Reykvíkinga sjálfa. Við skulum ekki gleyma því að innanlandsflug í borginni skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli fyrir ferðaþjónustuborgina Reykjavík, fyrir utan allan þann fjölda starfa sem flugvöllurinn skaffar.

Ég er þeirrar skoðunar að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera þar sem hann er. Ég tel hins vegar brýnt að menn reyni, eins og reynt hefur verið, að ná einhvers konar samkomulagi við þá sem ráða í borginni og beri virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem þar hafa komið fram.

Mér finnst sú umræða sem hér er að vissu leyti dálítið ótímabær. Við vitum að efnahagástandið er með þeim hætti að þessi umræða er ekki beinlínis á dagskrá. Reykjavíkurflugvöllur er ekki að fara nokkurn skapaðan hlut. Hvort sem menn byggja samgöngumiðstöð eða ekki er það svo að þetta er ekki brýnasta verkefnið sem menn ættu að standa frammi fyrir núna. Ef hægt væri að ná samkomulagi við Reykjavíkurborg um að bæta aðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli — ég hygg að við sem höfum notað flugvöllinn, og það býst ég við að allir hér inni geri, gerum okkur grein fyrir að aðstaðan þar er ekki viðunandi og hana þarf að bæta — ef hægt væri að ná niðurstöðu á þeim nótum sem hæstv. innanríkisráðherra nefndi áðan í góðu samkomulagi við borgaryfirvöld hygg ég að það sé mjög mikilvægt skref í þá átt að ná sátt um innanlandsflugið og Reykjavíkurflugvöll þar sem hann og menn geri sér þá í leiðinni grein fyrir mikilvægi hans fyrir landið allt.