139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta er dæmalaus umræða. Reykjavíkurflugvöllur tekur yfir um 300 hektara lands sem ekki er hægt að byggja á vegna hans. Öll Reykjavík vestan Snorrabrautar er rétt rúmlega 300 hektarar. Flugvöllurinn á öllu þessu landsvæði afgreiðir um 900 manns á dag. Kaffi París hinum megin við Austurvöllinn afgreiðir sennilega fimmfalt ef ekki tífalt þann fjölda. Flugvöllurinn eyðileggur beinlínis skipulag alls höfuðborgarsvæðisins og kostnaðurinn er gríðarlegur vegna hans. Skýrsla Hagfræðistofnunar sýndi fram á óþægindaálag annars vegar af því að farþegar í innanlandsflugi þyrftu að keyra til Keflavíkur og hins vegar óþægindaálag íbúa höfuðborgarsvæðisins vegna flugvallarins í formi aukins aksturs á svæðinu. (Gripið fram í.) Aukið óþægindaálag flugfarþega, yrði flugið fært til Keflavíkur, mældist í tíma 140 mannár. Aukið óþægindaálag íbúa á höfuðborgarsvæðinu öllu vegna aukins aksturs mældist rúmlega 25.000 mannár. Heildarbílakostnaður íbúa á svæðinu eru 200 milljarðar á ári. Byggð í Vatnsmýri mundi spara um 40 milljarða á ári af þeim kostnaði, þá er biðtími í umferðinni ekki reiknaður með. Hægt er að telja upp fjölmörg fleiri rök sem mæla með flutningi flugvallarins til Keflavíkur en þar er m.a. heil ónotuð flugstöð tilbúin til notkunar.

Samgöngur og þar með talið innanlandsflug eiga að snúast um hagkvæmni. Það er glórulaust að hafa flugvöll í svo lítilli notkun á þessu svæði. Innanlandsflugið er barn síns tíma. Með betri vegasamgöngum og ferjusiglingum hefur það einfaldlega látið í minni pokann. Það er eðlileg þróun en ekki eitthvað vont. Og persónulegir hagsmunir og kjördæmapot örfárra þingmanna Norðvestur- og Norðausturkjördæma eiga að sjálfsögðu (Forseti hringir.) ekki að ráða því að Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt fái ekki að þróast með hagkvæmum hætti. Hæstv. ráðherra hefur allar þessar upplýsingar undir höndum. Þegar menn hafa rangt fyrir sér eiga þeir (Forseti hringir.) að skipta um skoðun. Vonandi gerir ráðherrann það. (Gripið fram í: Fulltrúi sannleikans.)