139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég vil byrja á því að segja að allir tapa á því ef framtíðarsýnin er ekki skýr. Kínverjar skipuleggja gjarnan mál sín og atvinnuuppbyggingu til 100–200 ára. Hér er enn verið að tala um hvað gera eigi í Vatnsmýrinni árið 2016. Nú er komið fram á árið 2011. Þrátt fyrir að haldin hafi verið borgaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllurinn ætti að fara eða vera og hægt var að merja út úr því lítinn meiri hluta með því að flugvöllurinn ætti að fara — stefna Samfylkingarinnar er að hann eigi að fara — þá þýðir það ekki að okkur beri að lúta því.

Nú sýnist mér að á þinginu sé að myndast pólitísk samstaða um að taka af skarið og taka ákvörðun um að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera þar sem hann er. Að sjálfsögðu eigum við að líta til þess að byggja þar upp til framtíðar. Hér er verið að tala um að enn skorti byggingarlóðir. Bíddu — veit fólk ekki að hér hrundi heilt hagkerfi? Hvað skyldu vera margar lausar íbúðir á stór-Reykjavíkursvæðinu nú þegar? Hér verður ekkert byggt næstu 20–30 árin. (Gripið fram í.) Hér er nóg af húsnæði. Það er nóg til af lóðum sem þegar hafa verið skipulagðar, með rafmagnsköplum, vatnsveitu og öðru. Keyrið um nokkur hverfi Stór-Reykjavíkursvæðisins og sjáið hvað Orkuveita Reykjavíkur var neydd til að fara í á uppgangstímunum, að leggja bæði heitt vatn, kalt vatn og rafmagn í þessi hverfi. (Gripið fram í.)

Við skulum átta okkur á því að hér þarf skýra framtíðarsýn sem mér heyrist að hæstv. innanríkisráðherra sé að leggja drög að. Þetta skiptir landsbyggðina máli og þetta skiptir ekki síst Reykvíkinga máli vegna atvinnumöguleika.

Áðan var því gaukað að mér að það eru ekki bara 1.000 afleidd störf í kringum flugvöllinn fyrir aðila og einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu heldur 7.000 (Forseti hringir.) þegar allt er talið með hótelum, veitingastöðum og öðru.

Ég fagna því að innanríkisráðherra (Forseti hringir.) sé jákvæður fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera þar sem hann er.