139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:13]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég hjóla stundum í vinnuna og hjóla meðfram flugvellinum. Það vill svo til að hann er staðsettur á besta byggingarsvæði höfuðborgarinnar. Þegar ég hjóla þar fram hjá hugsa ég oft: Þarna væri alveg frábært að búa. Þarna væri hægt að byggja lágreista byggð þar sem íbúarnir þyrftu ekki að reiða sig jafnmikið á bílinn og þeir sem búa í úthverfunum lengst uppi á heiðum. Hv. þm. Kristján Möller talaði áðan um að hitastigið uppi á heiði væri lægra og meira frost þar. Viljum við þá hafa íbúana þar? Nei, ég vil það ekki.

Forseti. Mér finnst algjörlega fáránlegt að hafa flugvöllinn á besta stað í bænum með tilheyrandi hávaðamengun og öllu því plássi sem hann tekur og hægt væri að nota í svo margt annað.

Ég vil benda á að þeir sem eiga erindi á höfuðborgarsvæðið og koma flugleiðis eiga ekkert endilega erindi í póstnúmer 101 Reykjavík. Það er ekki svo. Miðja höfuðborgarsvæðisins er í Kópavogi. Fyrir þann sem þarf að fara í Grafarvog eða Garðabæ getur verið miklu betra að lenda einhvers staðar í grennd við Hafnarfjörð. Það væri prýðilegt að hafa innanlandsflugið einhvers staðar mitt á milli Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins. Þá væri jafnstutt hvort sem maður ætlaði í miðbæ Reykjavíkur eða í utanlandsflug í Keflavík. Ég kaupi ekki þau rök að innanlandsflug muni svo gott sem leggjast af verði það flutt úr hjarta höfuðborgarinnar.

Ég vil sem sagt flugvöllinn burt og það sem fyrst. Ég vil benda á að allt í kringum borgina, t.d. á Selfossi, Akranesi og Reykjanesinu, býr fullt af fólki sem keyrir á hverjum einasta degi til og frá vinnu. Þau rök að ferð til höfuðborgarinnar (Forseti hringir.) lengist um 20 mínútur til hálftíma við að flugvöllurinn verði færður eitthvað út fyrir bæinn og þá muni flug leggjast hér af, (Forseti hringir.) kaupi ég ekki.