139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég styð þetta mál, að sjálfsögðu, en þykir mjög leitt að það skuli þurfa að koma inn á borð hv. Alþingis. Mér finnst það sýna óbilgirni þeirra sem fá í krafti laga heimild til að andmæla því að haldnir séu hundar í húsi því að allir íbúar þurfa að samþykkja. Mér þykir með ólíkindum að menn neiti því að blindur maður fái blindrahund. Þeir eru nú ekki nema fimm á landinu, verða 18 að hámarki, og mér finnst þetta dæmi um óbilgirni, ekkert annað. Líkurnar á því að saman fari einn af þessum fimm blindrahundum og einhver íbúi í stigagangi með ofnæmi eru nánast stjarnfræðilega litlar. Stundum er þetta svona og það þarf að setja sérlög um að heimila þessum fimm leiðsöguhundum á landinu að vera, nema ofnæmi einhverra íbúa í stigagangi eða annað slíkt banni. Þá finnst mér að menn eigi bara að setjast niður, eigi ekki að þurfa lagasetningu til, og finna lausn á þeim vanda. Húsfélagið ætti að gera það. Að það skuli þurfa lagasetningu á Alþingi fyrir fimm hunda sem eru notaðir til að aðstoða blint fólk og bæta líf þess verulega er með ólíkindum. (Gripið fram í.)