139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vitna orðrétt í umsögn Alþýðusambands Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Þannig eru greiðslur almannatrygginga og sjúkrasjóða stéttarfélaganna vegna tekjutaps eða bóta skattskyldar að fullu eins og laun og mikilvægt að löggjafinn mismuni ekki á þann hátt að „einkatryggingar“ njóti hagstæðari skattareglna en þær tryggingar sem byggja á samtryggingarformi eins og greiðslur almannatrygginga og sjúkrasjóðanna.“

Það eru þau sjónarmið og þau lykilatriði sem reifuð voru í umsögn Alþýðusambandsins en fyrir nefndinni var alveg ljóst að Alþýðusambandið setti ekki út á að skattfrelsi ríkti um eingreiðslubætur.

Ég get vitnað í umsagnir fleiri aðila sem komu fyrir nefndina, t.d. Landssambands eldri borgara og Hjartaheillar, sem segir í sinni umsögn, svo ég vitni orðrétt:

„Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, fagnar eðli málsins samkvæmt að ekki verður skattlagt eftir á útgreiðslu vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010, eins og fram kemur í lagafrumvarpinu. Á móti telja samtökin að ganga verði alla leið og tryggja til framtíðar að engar skattgreiðslur komi til vegna sjúkdómatrygginga og útgreiðslna á bótum til handa bótaþegum.“

Undir þetta sjónarmið tekur meiri hluti nefndarinnar og breytir því frumvarpinu.