139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:50]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú breytingartillaga sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir ætlar að leggja fram fjallar um það raunverulega að herða skilyrðin aftur frá því sem við erum að tala um hérna, sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar varð sammála um. Rökin fyrir því eru að þetta sé meira fyrir hina efnameiri og muni leiða til þess að það verði einhvers konar tvöfalt velferðarkerfi og að það sé ekki æskilegt.

Það kom fram á fundi nefndarinnar, hjá þeim sem selja slíkar tryggingar, tryggingafélögunum, að þeir sem eru líklegastir til að kaupa slíka tryggingu eru hinir efnaminni og þeir sem eru með meðaltekjur. Þeir segja að hinir efnameiri hafi leitað í önnur úrræði, að það sé fyrst og fremst efnalítið fólk sem sé að kaupa sér tryggingu vegna þess að lítið megi út af bregða þannig að það lendi t.d. í vanskilum og annað slíkt og lendi í erfiðleikum með fjármál sín vegna þess að það hafi ekki borð fyrir báru. En nú vill þingmaðurinn halda því fram að það sé akkúrat hinn hópurinn sem tryggingafélögin segja að séu ekki viðskiptavinir sínir. Vill hv. þingmaður útskýra fyrir mér hvaðan hún hefur heimildir um að þetta séu mest efnameiri einstaklingar og hvort þessar nýju upplýsingar sem ég er að segja henni frá breyti ekki skoðun hennar?