139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum gefa okkur að gestir nefndarinnar komi sér ekki saman um að ljúga að nefndinni, gefum okkur það, að þetta séu réttar upplýsingar hjá þeim að það séu tekjulágir hópar og millitekjuhópar sem eru stærsti viðskiptavinahópurinn. Jafnframt finnst mér gæta nokkurs yfirlætis í því að tekjulágt fólk hafi ekki jafnmikla innsýn í hvernig skattkerfinu er háttað og tekjuhærra fólk, það er pínulítið yfirlæti í því sem ég vil eiginlega hafna.

Það er eitt í þessu og það er að nú hefur þetta verið skattfrjálst frá 1995 þangað til dómur fellur í desember 2010 þannig að 15 ára reynsla er komin á þessar tryggingar. Á þessum 15 árum — í fyrsta lagi ætti efnað fólk ekki að sjá þennan dóm neitt frekar fyrir sér en þeir sem fátækari eru og það væri mjög óskynsamleg hegðun hjá efnuðu fólki að bíða í 15 ár með að nýta sér þetta bara út af því skattamómenti sem hér er til umræðu.

Ég hefði viljað kalla eftir því í fullri alvöru að þingmaðurinn rökstyddi mál sitt mun betur en hún hefur gert og gæti kannski vísað í rannsóknina sem hún nefndi eða jafnvel sent okkur þingmönnum í efnahags- og skattanefnd þær rannsóknir sem hún vísar í, rannsóknar sem sýni að sjúkdómatryggingar henti betur efnaðra fólki. Ég hefði haldið að það væru öðruvísi tryggingar sem hentuðu vel efnuðu fólki vegna þess að sjúkdómatryggingar eru fyrst og fremst fyrir þá sem eru að detta út af vinnumarkaði vegna sjúkdóma og yfirleitt er það þannig að þeir sem eru hvað efnaðastir eru ekki á hinum hefðbundna vinnumarkaði.