139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig ákaflega að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir höfði til þess að ég sé hagfræðingur og hún vilji leita svara hjá mér af því að hún sé ekki dómbær vegna þess að hún sé ekki hagfræðingur. Ég vildi að það væri í fleiri málum.

Mér skilst að í kringum 40 þúsund skírteini hafi verið seld. Aftur á móti verð ég að viðurkenna að ég man ekki alveg, mig minnir að það hafi verið gerðar 5 þúsund kröfur en hve mörgum var hafnað man ég ekki, ég verð bara að játa mig sigraðan í því. Og hvort þróunin varð á græðgistímanum sem hv. þingmaður kallaði svo, eins og ég ætti að vita nákvæmlega við hvaða tímabil væri miðað, en á tímabilinu 1995–2011 voru slíkar tryggingar seldar. Ég held hins vegar að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að íslenskur vinnumarkaður hefur verið að breytast og þetta er í raun forvitnileg spurning, hvort svo geti verið að eftirspurn eftir sjúkdómatryggingum og alls konar tryggingum hafi aukist við það. Þess ber að geta að öllum verktökum eru greidd hærri laun til að standa straum af slíkum tryggingum og sjá um ýmis launatengd gjöld og þá hefðu þeir átt að nota það til þess. En þetta er mjög forvitnileg hugsun hjá þingmanninum.