139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins blanda mér í umræðuna um breytingu á lögum um tekjuskatt sem verið hefur til umræðu, þ.e. breytingu á svokölluðum sjúkdómatryggingum.

Það kom í ljós þegar dómur féll í máli að rétt væri samkvæmt laganna hljóðan eins og þau eru í dag að skattleggja þessar bætur. Þá komu fram ýmis sjónarmið, þar með talin sanngirnissjónarmið í þá veru að ekki væri sanngjarnt að þeir sem keyptu tryggingar á ákveðnum forsendum þyrftu að sæta því að sumir sem keypt hefðu þær tryggingar hefðu notið annars réttar en þeir, þ.e. að skyndilega væri komin upp sú staða að þær bætur sem þessir einstaklingar ættu að fá væru skattlagðar en hefðu ekki verið skattlagðar hjá öðrum sem hefðu fengið sambærilegar bætur og keypt tryggingarnar á sömu forsendum. Það var að mínu viti upprunalega innihaldið í frumvarpinu sem við ræðum í dag. Í rauninni má segja að þar hafi verið á ferðinni sanngirnismál, þ.e. að þarna hafi verið sett fram frumvarp með hugmyndinni um að gæta ákveðins jafnræðis á milli einstaklinga sem töldu sig hafa keypt sömu vöru eða sambærilega vöru, ef við getum orðað það þannig.

Í kerfi okkar á Íslandi eru þó til sambærilegar eða svipaðar tryggingar í dag, m.a. hjá verkalýðsfélögum, og þá á ég ekki við sjúkrasjóðina, frú forseti. Þar á ég við sjóði sem kallaðir eru fjölskyldu- og styrktarsjóðir hjá flestum verkalýðsfélögunum. Ég hef notið þeirrar gæfu að vera í stjórn eins slíks sjóðs þar sem menn geta keypt sig inn þó að þeir séu ekki í fullu starfi neins staðar, þó að þeir séu verktakar, svo framarlega sem þeir eru félagar í viðkomandi stéttarfélagi. Menn borga inn í þennan sjóð, fá síðan út eingreiðslu svipað og ef þeir hefðu keypt sér tryggingu með gjaldgreiðslu, en þeir borga fulla skatta af útgreiðslunni. Þess vegna tel ég að við ættum ekki á þessu stigi málsins að ganga alla leið heldur væri nær að gera það sem upprunalega frumvarpið ætlaðist til, þ.e. að leiðrétta þetta misrétti og óréttlæti en nota þá jafnframt tækifærið til að fara yfir löggjöfina með heildstæðari hætti þannig að við tækjum í raun á fleiri þáttum málsins sem komið hefur fram í umræðunni að ekki hefur verið leyst úr. Ég held að það hefði að mörgu leyti verið heppilegra. Ég hvet nefndarmenn, þar með talinn hv. þm. Magnús Orra Schram, að taka þótt ekki væri nema einn snúning á þeim vangaveltum í nefndinni á milli 2. og 3. umr.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara að gera þetta mál að einhverju meginatriði í sambandi við það hvort við erum með einfalt eða tvöfalt heilbrigðiskerfi o.s.frv. Ég tel að vísu að við séum þarna að opna pínulítinn glugga í þá átt að tilteknir hópar geti keypt sér aukatryggingar sem aðrir geta ekki, ekki endilega vegna efnahags heldur vegna sjúkdóma. Sú umræða hefur ekki enn farið fram, þ.e. um að við erum eða getum með þessu verið að skipa einstaklingum í mismunandi hópa eftir heilsufari með tilliti til tryggingaverndar því að við vitum að tryggingafélögin munu eðli málsins samkvæmt selja tryggingar með tilliti til þess hver áhætta þeirra er. Tryggingafélög eru ekki í neinni „non profit“ þjónustu. Hjá hinu opinbera eru hins vegar engin skilyrði fyrir tryggingum, þ.e. fyrir því að vera sjúkratryggður.

Það kom einnig fram í umræðunni að velferðarkerfið íslenska væri komið á slíka hrakhóla og væri orðið svo lélegt, og ég legg áherslu á það, frú forseti, að ég tek ekki undir þau sjónarmið sem komu fram í máli þingmanna áðan, að það yrði að bregðast við og að það ætti að gera með einkatryggingum. Ég verð að segja að ég skil ekki þá röksemdafærslu því að ef velferðarkerfið okkar er ekki í nægilega góðu lagi hlýtur leiðin til að laga það miklu frekar beinast að því sjálfu en ekki að leita leiða til að laga eitthvert kerfi til hliðar við velferðarkerfið eða koma upp einhverju kerfi til hliðar við það. Ég tel að ef tryggingafélögin vilja halda áfram hér eftir að bjóða svona tryggingar eftir að lögin hafa tekið gildi, eins og ég vil að þau verði, eigi þau að gera það en ekki treysta á að ríkið hjálpi þeim með því að láta bæturnar verða skattfrjálsar.