139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að koma í andsvar við hv. þingmann vegna þess að hann sagði að íslenska velferðarkerfið væri á hrakhólum. Það er bara ekki rétt. Það er í hraðri þróun til batnaðar. Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins — hann var víst einn í ríkisstjórn í 18 ár — óx velferðarkerfið og dafnaði. Ég er nýbúinn að fá svar við fyrirspurn um framlög til málefna fatlaðs fólks og þau jukust alveg gífurlega á alla mælikvarða meðan Sjálfstæðisflokkurinn var við stjórn, hann ætti því að heita velferðarflokkur frekar en flokkarnir sem nú eru í ríkisstjórn sem eru að eyðileggja allt með ofurskattlagningu og niðurbroti. (Gripið fram í: Eyddi um efni fram.) — Sjálfstæðisflokkurinn eyddi ekki um efni fram, það var afgangur á ríkissjóði flestöll árin (Gripið fram í: Og lækkaði skatta.) og lækkaði skatta og jók skattstofna.

En það að kerfið sé á hrakhólum er ekki rétt vegna þess að margt hefur verið gert til bóta. Búið er að setja lög um starfsemi lífeyrissjóða, það var gert þegar Sjálfstæðisflokkurinn við stjórn, frú forseti. Það er búið að gera heilmikið í því að þróa velferðarkerfið. En það vantar enn lög um sjúkrasjóðina. Ég vildi gjarnan stuðla að því að þau yrðu sett. Sem sjálfstæðismaður ætlaði ég að koma með tillögu um það, og hef komið með hana, í félagsmálanefnd að nefndin flytji breytingar og setji ramma utan um starfsemi sjúkrasjóða.

En það eru alltaf til hópar í þjóðfélaginu sem lenda utan borðs — við gætum að sjálfsögðu tekið upp sjúkrasjóð þeirra sem ekki væru í stéttarfélögum, það væri hægt, nákvæmlega eins og gert var hjá lífeyrissjóðunum, að settur var upp söfnunarsjóður lífeyrisréttinda sem tryggði þá sem ekki áttu rétt í þessum stéttarfélagssjóðum. Það gætum við gert en það er félagafrelsi á Íslandi.