139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Flestöll gjöld í sjóði stéttarfélaga eru skattfrjáls, öll iðgjöld, vegna þess að það er atvinnurekandinn sem greiðir þau, mörg hver, og hann dregur allan launakostnað frá skatti. Þar með eru þau iðgjöld öll skattfrjáls í sjúkrasjóðina, í orlofsheimilasjóðina o.s.frv.

Ef menn geta lokað velferðarkerfinu þannig að ekki þurfi tryggingu til fólks — við skulum t.d. hugsa okkur að ungur maður og ung kona komi sér upp heimili og eigi börn, kaupi hús eða litla íbúð með miklum skuldum. Konan verði svo veik eða lendi í slysi og engar tekjur komi inn. Það getur vel verið að hún fái eitthvað úr sjúkrasjóði en allar skuldirnar tikka. Vill hv. þingmaður að sjúkrasjóðirnir borgi niðurskrift á skuldum þegar slíkt kemur upp á? Ég er ekki viss um að menn séu til í að skuldirnar séu skrifaðar niður þegar menn lenda í áföllum. En það er það sem ætti kannski að gera, að hafa eingreiðslu til að borga niður skuldir ef menn lenda í því áfalli að tekjurnar detta niður eða minnka verulega.

Það má vel vera að hægt sé að setja það ákvæði inn í sjúkrasjóðina ef við hv. þingmaður setjumst saman í félagsmálanefnd, sem við erum báðir í, og semjum rammalöggjöf um sjúkrasjóðina, þá verður kannski sett inn, ef hv. þingmanni tekst að sannfæra menn um það, niðurskrift á skuldum ef fólk lendir í áfalli. Ég er ekki alveg sannfærður um að sú hugmynd sé góð en vildi koma inn á hana vegna þess að þær tryggingar sem við erum að tala um hér virka einmitt þannig. Það er eingreiðsla sem kemur upp ef menn lenda í áfalli og þá geta þeir lækkað skuldirnar sínar.