139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

642. mál
[17:16]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að hrósa hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir þá tillögu sem hann leggur hér fram. Hann hefur greinilega lagt mikla vinnu í hana, hún er sett fram af íhygli og er uppbyggileg og Alþingi Íslendinga og þjóðinni allri veitir ekki af uppbyggilegum tillögum. Ég er á margan hátt sammála þessari tillögusmíð, alltént tel ég að skoða beri einhverjar leiðir í námunda við það sem hv. þingmaður leggur fram svo fremi sem það bitnar ekki á áætluðum tekjum ríkissjóðs á þessu ári. Við megum ekki við því að ganga mjög hart á þær tekjur sem ríkið áætlaði að innheimta á þessu ári ella verðum við að skera meira niður og það getur verið viðkvæmt.

Hv. þingmaður setti fram mál sitt af rökvísi. Hann talaði um það í ræðu sinni að hugsanlegt tekjutap af hálfu ríkisins yrði innan ásættanlegra marka ef tillagan gengi eftir. Ég vil því spyrja hann: Hvað er innan ásættanlegra marka? Er hægt að finna það með hagfræðilegum hætti, stærðfræðilegum hætti? Það er mjög mikilvægt að það svar liggi fyrir áður en við ræðum þetta frekar.

Ég ítreka að í þágu mjög margra þátta ber að skoða þessa tillögu í þaula, ekki síst ferðaþjónustu á komandi árum sem er hagstjórnartæki sem við getum nýtt til að spýta inn í hagkerfið hagvexti fljótt og vel. Öll tæki eru þar til staðar. Ég ítreka jafnframt að þetta mál hefur bein áhrif á afkomu fjölskyldna í landinu með vísitöluáhrifum sem við þekkjum. En spurningin er klár.