139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

642. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð. Þannig er mál með vexti að það er alltaf óvissu háð í svona skattbreytingum hver hagvaxtaráhrifin verða nákvæmlega. Ég vil halda því fram, þó að við séum mjög varfærin í greinargerðinni, með nákvæmlega sömu rökum og fjármálaráðherra Bretlands setti fram við bensíngjaldalækkun þarsíðasta föstudag að hagvaxtaráhrifin muni leiða til þess að tekjur ríkissjóðs aukist frá því sem gert er ráð fyrir í áætluninni. Þrátt fyrir að ríkissjóður eigi við mikil vandamál að stríða verðum við líka að hugsa um það að ríkissjóður er ekki bara til fyrir sjálfan sig heldur fyrir fólkið í landinu og það verður að gefa fólki tækifæri til að reka bílinn sinn vegna þess að hann er lífsnauðsynlegur á Íslandi. Jafnframt verður að gefa fólki tækifæri til að eyða minna í eldsneyti til að það geti eytt meiru í aðra neysluvöru sem er kannski að verða af skornum skammti. Heildaráhrifin á ríkissjóð held ég að verði þau að tekjurnar verði meiri með lækkuninni en ella.