139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

642. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð, tímabundið. Fyrir því eru ákveðnar ástæður sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur rakið ágætlega en ég ætla að bæta dálitlu við.

Þeir sem ferðast hérna í Reykjavík hafa tekið eftir því að menn komast miklu hraðar leiðar sinnar, frú forseti, sem er jákvætt í hugum flestra en þegar maður fer að kafa ofan í ástæðu þess er það afskaplega neikvætt. Umferðin er svona lítil vegna þess að fólk hefur ekki efni og getur ekki keyrt eins og það gerði áður. Sömu sögu er að segja af því sem er að gerast úti á landi, þar hefur umferð minnkað mjög mikið. Maður heyrir líka að margir hafi ekki lengur efni á því að fara í sumarbústaðinn eða heimsækja ættingja úti á landi, eða að fólk úti á landi hefur ekki efni á því að koma í bæinn til að heilsa upp á ættingja og vini þar og jafnvel versla eitthvað eða hvaða erindi sem það á eða eiga erindi við opinbera aðila. Þetta er neikvæða hliðin.

Hvað segir þetta mér og öðrum hv. þingmönnum, frú forseti? Það segir mér það að þegar verð hækkar þá lækkar umsetningin eða magnið af vörunni. Það kalla hagfræðingar verðteygni, þ.e. þegar verð hækkar, sérstaklega svona skyndilega og mikið, dregst neyslan saman. Það er tiltölulega nýverið sem menn uppgötvuðu þessi fræði, á Íslandi alla vega, þetta er löngu þekkt úti í heimi. Menn voru voðalega hissa hérna í eina tíð þegar þeir hækkuðu skatta að þá minnkuðu tekjurnar eða magnið alla vega og jafnvel tekjurnar. Og öfugt þegar skattar voru lækkaðir, t.d. þegar skattar á tekjur voru lækkaðir stórjukust allt í einu tekjurnar í landinu.

Þetta er ákveðið fyrirbæri. Í þessu sambandi er rétt að nefna fyrirbæri sem heitir Laffer-kúrfa sem segir manni það að ef menn ganga óhóflega langt í skattlagningu minnka tekjur ríkissjóðs. Vanþekking á þessum lögmálum er ekki gömul því að maður heyrir meira að segja hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra lýsa því yfir trekk í trekk að skattar séu að lækka af því að skatttekjurnar eru að lækka. Það er allt annar handleggur. Skatttekjur ríkissjóðs geta lækkað þó að skattar séu hækkaðir og einmitt út af því. Ef skattarnir eru hækkaðir of mikið minnkar magnið svo mikið að hærri skattar gefa samanlagt minni tekjur af því magnið minnkar hraðar en skattarnir voru hækkaðir. Lækkun á skatttekjum hefur því ekkert með skattalækkun að gera. Ég ætla að vona að ég heyri það ekki oftar hér frá þessum tveimur leiðtogum þjóðarinnar, sérstaklega frá hæstv. fjármálaráðherra.

Það eru ýmsar ástæður fyrir þessari skammtímahækkun og þær eru raktar í greinargerð með frumvarpinu. Það er stríðið í Norður-Afríku og óróinn í öllum Arabalöndum af frelsisöldu sem fer þar um, eins og getið er um, veldur skammtímahækkun. Síðan er það jarðskjálftinn í Japan sem veldur líka skammtímahækkun en mun væntanlega jafnvel valda lækkun til lengri tíma.

Þegar verðið hækkar allt í einu svona skyndilega getur það valdið miklum óbætanlegum skaða í efnahagslífinu vegna þess að atvinnugreinar sem hafa starfað lengi, eins og ferðaþjónusta og annað slíkt, og gætu starfað lengi með hægt vaxandi orkuverði detta bara út. Ef þessi hækkun, skammtímahækkun á olíuverði, fer óhindrað inn í verðlagið getur verið að margur ferðamaðurinn hætti við að koma til Íslands af því það sé orðið of dýrt að keyra bílaleigubíl eða eitthvað slíkt, eða að rúturnar séu orðnar of dýrar eða eitthvað slíkt. Óneitanlega er ferðamennska á Íslandi alltaf orkufrek og þarf einmitt olíu og dísil. Ef þetta verður of dýrt getur ferðamannastraumurinn minnkað og hann minnkar mjög skart, þ.e. það er mjög há verðteygni í ferðamannaþjónustu vegna þess að ferðamaðurinn þarf yfirleitt ekki að ferðast, hann getur bara setið úti í garði í sumarleyfinu sínu í Bandaríkjunum eða hvar það nú er. Ef honum finnst verðið of hátt eða of hátt fyrir budduna hans sleppir hann því og þá getur tekjufallið orðið umtalsvert. Þess vegna er mikilvægt að slá af slíkar bólur, reyna að vinna gegn þeim svo þessi skaðlegu áhrif komi ekki fram, þannig að eftir kannski níu mánuði, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, sé verðið komið aftur niður en þá sé búið að skemma varanlega eitthvað sem hefði getað verið á lífi ef þetta frumvarp verður samþykkt, þ.e. áhrif þessa frumvarps geta verið þau að hindra sár í efnahagslífinu sem sitja eftir svona bólur þegar þær verða.

Það sem gerist ef olíuverð hækkar er að þá fara menn strax að leita að nýjum orkuleiðum, breyta kolum í bensín, nýta olíusand og eitthvað slíkt, vindmyllur og annað slíkt, þannig að til langframa jafnast verðið aftur út. Það hækkar ekki þannig. Hins vegar eru í gangi ákveðin öfl í heiminum sem hanga saman við það sem ég hef nefnt áður, að Kínverjar eru farnir að borða, þar var hungursneyð áður og nú er hún horfin og komið efnafólk þar, margt. Sama er að segja um Indverja, þeir eru farnir að nota orku. Þar af leiðandi hefur matur og orka hækkað.

Við getum ekki stöðvað langtímahækkun á orkuverði, það er ekki æskilegt — fyrir utan það að Ísland er mesta orkuframleiðsluland í heiminum þannig að sú þróun er jákvæð fyrir Ísland — en það getur verið mjög mikilvægt að stöðva skemmdir vegna skammtímahækkunar. Frumvarpið gengur út á það.

Áhrif þessa frumvarps á ríkissjóð eru margþætt vegna þess að ríkissjóður og staða ríkissjóðs er samtvinnuð við stöðu efnahagslífsins. Það hvernig ríkissjóður er rekinn hefur áhrif á efnahagslífið, við sjáum það núna, það er allt komið í frost vegna þess að hæstv. ríkisstjórn er búin að hækka skatta á fjárfestingar. Ég ætla ekki að fara nánar í það, ég hef farið út í það áður. Öll fjárfesting er dottin niður út af skattstefnu ríkisstjórnarinnar og efnahagslífið líður fyrir það og ríkissjóður í kjölfarið. Þetta er gagnkvæmt samspil ríkissjóðs og efnahagslífs. Þess vegna er svo erfitt að segja hvernig þetta frumvarp virkar. Við getum reiknað það út nákvæmlega, með ákveðnum forsendum um verðteygni getum við reiknað það út nokkuð nákvæmlega hvaða áhrif þessir skattar hafa á ríkissjóðs, hvað þeir lækka mikið, að því gefnu að magnið aukist aftur eða minnki ekki o.s.frv. En við getum ekki eða mjög illa metið hvaða áhrif þetta hefur á ferðamannaþjónustu, hvaða áhrif þetta hefur á landsbyggðina, sem hækkun á orkuverði hefur óneitanlega mjög skaðleg áhrif á. Þau áhrif er mjög erfitt að meta en þau eru eiginlega öll til skaða fyrir ríkissjóð. Svona skammtímahækkun á orkuverði getur skaðað ríkissjóð mjög mikið. Þannig að þetta frumvarp, þó að það komi fram að kosti 3,9 milljarða í þessa níu mánuði, er ég nokkuð sannfærður um að það tjón verður miklu minna og jafnvel að á endanum hagnist ríkissjóður á því að hér verði ekki varanlegar skemmdir á heilum atvinnugreinum eins og t.d. ferðaþjónustu.