139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

stjórnlagaþing.

644. mál
[17:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar Hæstiréttur úrskurðaði að kosningin væri ógild fannst mér þar sem hún byggði á lagaákvæðum sjálfgefið að lögin yrðu felld úr gildi af því að ekki væri hægt að kjósa aftur samkvæmt þeim óbreyttum, að annaðhvort yrði að breyta þeim eða fella þau úr gildi. Það hefði mátt gera strax.

Ákvæðið til bráðabirgða um að ráða megi fólk án auglýsingar — hvað gerist ef hv. Alþingi samþykkir ekki frumvarpið, sem við verðum náttúrlega alltaf að reikna með? Þetta eru mistök. Þetta átti að ræða með hinu þingmálinu vegna þess að í rauninni þarf núna að auglýsa þessar stöður að óbreyttum lögum. Það er alla vega lagaóvissa um það hvort Alþingi megi ráða fólk í þetta án þess að auglýsa stöðurnar. Hér er verið að koma því inn og það er allt í einu gert núna. Það hefði mátt gera það með hinu málinu. Mér finnst þetta vera óvönduð lagasetning.