139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórnleysi.

[10:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að síðustu dagar í lífi ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið neinn dans á rósum. Raunar er það svo að ríkisstjórninni hafa verið mislagðar hendur síðan hún tók við en það hefur beinlínis verið átakanlegt að fylgjast með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur síðustu tíu daga eða svo.

Í síðustu viku missti ríkisstjórnin tvo hv. þingmenn fyrir borð og því var haldið fram að það styrkti ríkisstjórnina. Hæstv. forsætisráðherra braut jafnréttislög og reynt var að halda því fram að það lögbrot hafi verið faglegt. Hæstv. sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, lýsti andstöðu sinni við frumvarp eigin ríkisstjórnar um breytingar á Stjórnarráðinu og hæstv. innanríkisráðherra gerði alvarlegan fyrirvara við sama mál. Stjórnlagaráði var komið á fót með minni hluta atkvæða þingmanna en án stuðnings hæstv. forseta Alþingis og tveggja ráðherra í ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin festi gjaldeyrishöft í sessi til ársins 2015 við litlar vinsældir og rammaði þar með inn vantrú sína á eigin hagkerfi. Vinstri grænir komust á lista hinna viljugu og staðföstu vegna hernaðaraðgerðanna í Líbíu fyrir tilstuðlan hæstv. utanríkisráðherra. Þær aðgerðir styður hann en hæstv. fjármálaráðherra og Vinstri grænir ekki og þeir segjast nú ekki einu sinni hafa verið spurðir álits, manni virðist reyndar sem hæstv. utanríkisráðherra sé í annarri ríkisstjórn en hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra er kominn upp á kant við þá báða. (Gripið fram í.) Heilbrigðiskerfið er í uppnámi þar sem samningar við sérfræðilækna eru að renna út og ekkert sem bendir til að við þá verði samið og Samtök atvinnulífsins gáfust upp á ríkisstjórninni og kjarasamningar eru upp í loft. Þetta voru síðustu dagar í lífi ríkisstjórnarinnar og er þá ekki minnst á atvinnuleysi, hagvöxt o.fl.

Ég ætla ekki að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort hún telji að þetta hafi styrkt ríkisstjórnina en það blasir við mér (Forseti hringir.) og öllum sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum að það ríkir algert stjórnleysi í landinu. Sé verkstjóri ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, ósammála (Forseti hringir.) mér um það þá vil ég biðja hana um að útskýra fyrir mér og þjóðinni hvað eiginlega (Forseti hringir.) felst í hugtakinu „stjórnleysi“.