139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórnleysi.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var löng upptalning hjá hv. þingmanni og ljóst að það er engin ládeyða í kringum ríkisstjórnina. Ég hélt satt að segja að þingmaðurinn ætlaði aldrei að komast að spurningunni í þessum spurningatíma. En spurningin er um — ég bara man hana ekki. (SKK: Túlkun á stjórnleysi.) Stjórnleysi, það er sko alls ekki stjórnleysi. Til marks um það erum við að halda mikilvægan fund í dag með aðilum vinnumarkaðarins sem við skulum vona að skili árangri. Eitt af brýnustu verkefnunum er að koma kjarasamningum í höfn og unnið hefur verið ötullega að því af hálfu ríkisstjórnarinnar, meðal annars með aðilum vinnumarkaðarins, að koma upp fjárfestingar- og hagvaxtaráætlun sem skili okkur áleiðis til að byggja upp atvinnulífið. Það er kannski brýnasta verkefnið fram undan og við skulum vona að það skili árangri.

Við skulum líka vona að hún skili jákvæðri niðurstöðu sú atkvæðagreiðsla sem á að fara fram eftir rúma viku um Icesave þannig að það mál sé frá. Og ég hygg að mér endist ekki sá tími sem ég hef til að telja hér upp þann árangur sem ríkisstjórnin hefur skilað á tveimur árum sem má sjá í ýmsum efnahagsstærðum í samfélaginu. Verðbólgan er með því lægsta sem þekkist, stýrivextir hafa sjaldan verið lægri, atvinnuleysi minna þó að það sé allt of mikið og það er verið að vinna að því í þeirri áætlun sem hefur verið lögð fram í dag að minnka atvinnuleysið.

Ég held að hv. þingmaður ætti ekki að hafa neinar áhyggjur af ríkisstjórninni. Henni hefur oft veri spáð dauða, eins og við þekkjum, en hún virðist hafa mörg líf og virðist standast allar áraunir sem á hana eru lagðar og virðist ganga vel upp þessa bröttu brekku sem hún þurfti að ganga upp þegar hún tók við (Forseti hringir.) efnahags- og atvinnulífinu í rúst eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði stjórnað í mörg ár.