139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórnleysi.

[10:37]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklar áhyggjur af ríkisstjórninni, það væri mér ekkert á móti skapi að hún færi frá. Ég hef áhyggjur af þjóðinni sem býr í þessu landi vegna þess að það blasir við öllum sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum að algert stjórnleysi ríkir í landinu. Hæstv. forsætisráðherra tókst ekki að útskýra fyrir mér hvað felst í hugtakinu „stjórnleysi“ ef sú upptalning sem ég kom með gerir það ekki.

Hæstv. forsætisráðherra leyfir sér að halda því fram að árangur ríkisstjórnarinnar sé mikill. Ég verð að segja það að ég hef sjaldan eða aldrei heyrt neinn forsætisráðherra í þessum ræðustól vera haldinn eins mikilli afneitun og hæstv. forsætisráðherra. Hún virðist ekki vera í neinum tengslum við fólkið í landinu og (Forseti hringir.) alls ekki sína eigin ráðherra þar sem hver höndin er upp á móti annarri.