139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórnleysi.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst að hv. þingmaður skuldi stjórnarflokkunum skýringu á þessu orði sem hann tekur sér iðulega í munn, stjórnleysi og verkleysi. Stjórnleysi og verkleysi eru ekki til í orðabók ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún hefur unnið mjög kappsamlega, í þau rúm tvö ár sem hún hefur verið við stjórnvölinn, að því að hreinsa upp eftir íhaldið, eftir að það hafði stjórnað hér í 18 ár. Það er ekkert smáverkefni að taka það að sér og reisa við efnahagslífið og atvinnulífið og fjármálamarkaðinn úr rústum eftir óstjórn íhaldsins. Það er ekkert smáverkefni. Ég held að hv. þingmaður ætti að fara að leita í orðabókunum sínum, athuga hvað þetta stjórnleysi þýðir og bera það saman við verk ríkisstjórnarinnar á síðustu tveimur árum.