139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

umsókn fjársterkra aðila um íslenskan ríkisborgararétt.

[10:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið og ég vil benda á að hér er um alvörumál að ræða og sporin hræða virkilega hvað þetta áhrærir.

Það er ekki langt síðan hæstv. forsætisráðherra á Íslandi átti sér þann draum að Ísland yrði þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Hann átti sér þann draum. (Gripið fram í: Ekki þessi forsætisráðherra.) Og þeir klöppuðu sér til blóðs, félagarnir í Viðskiptaráði þegar hann hélt þá ræðu yfir þeim á sínum tíma og studdi þá með ráðum og dáð.

Hæstv. forsætisráðherra þess tíma hvatti til þess að aflétt yrði nánast öllum hömlum fyrir aðgang fjársterkra erlendra aðila til að koma inn í atvinnulíf á Íslandi og gera Ísland að miðstöð fjármálakerfis í heiminum, hvorki meira né minna. Við vitum hvernig það fór. Við vitum nákvæmlega hvernig sú tilraun misheppnaðist algerlega og fullkomlega vegna þess að við stóðum ekki á verðinum, þingið stóð sig ekki, ríkisstjórnin stóð sig ekki (Forseti hringir.) og því fór sem fór.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnina alla að standa vörð um Ísland hvað þetta varðar og láta ekki bugast undan því þó að verið sé að bjóða þúsundir milljarða (Forseti hringir.) fyrir ríkisborgararétt á Íslandi, (Forseti hringir.) hann á ekki að vera til sölu.