139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

rannsókn á stríðsrekstri í Líbíu.

[10:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því hvort ekki sé tilefni til að hann beiti sér sem utanríkisráðherra á NATO-vettvangi til að óska eftir því að gerðar verði rannsóknir á stríðsglæpum sem hafa verið sannaðir en þó ekki teknir til almennilegrar umfjöllunar eða fólk þurft að axla ábyrgð á þeim voðaverkum sem þar hafa verið framin.

Ég óttast að þetta stríð í Líbíu eigi eftir að þróast á óheillavænlegan hátt. Ég sá frétt í gær um að Obama hefði heimilað leynilegan hernaðarstuðning við líbíska uppreisnarmenn tveimur vikum fyrir árásirnar þar sem bæði Bandaríkjamenn, Frakkar og fleiri hafa verið gagnrýndir fyrir að hafa gengið allt of hart fram. Á eina höndina heyrir maður að vernda eigi saklausa borgara og margir tala um að það sé ekki hlutverk NATO eða að í þessari ályktun frá Sameinuðu þjóðunum hafi ekkert kveðið á um að það eigi að losa sig við Gaddafí. Ég hef heyrt í fréttum frá Líbíu, frá fólki sem þar býr, að Gaddafí fari seint frá, hann hafi lofað því að berjast til síðasta blóðdropa og deyja í heimalandi sínu ef það væri það sem þyrfti til að verja landið sitt gegn árásum NATO og fleiru.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki sé tilefni til að hann beiti sér í því að vekja athygli á og kalla eftir rannsóknum á stríðsglæpum í Afganistan. Þó að við séum ekki með fólk þar þá erum við með aðild að NATO og eigum að beita okkur þar til hins ýtrasta.